Barnamenningarhátíð Vesturlands í Snæfellsbæ árið 2022

Barnamenningarhátíð Vesturlands verður haldin í Snæfellsbæ á þessu ári.

Snæfellsbær heldur hátíðina í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, en Barnamenningarhátíðin er áhersluverkefni Sóknaráætlunar Vesturlands og er haldin til skiptis á þremur stöðum á Vesturlandi. Það eru Reykholt í Borgarfirði, Akranes og Snæfellsbær.

Markmið Barnamenningarhátíðar er að efla menningarstarf fyrir börn og ungmenni. Þátttaka barna og ungmenna er uppistaða hátíðarinnar.  Menningarstarf er stór þáttur í uppeldi og kennslu barna og skiptir því jafnræði máli og að börn geti verið þátttakendur í hinni ýmsu menningarstarfsemi. Hátíðin á að hvetja börn og ungmenni til virkrar þátttöku í menningarstarfi og veita þeim tækifæri til að njóta listar og menningar.

Ekki hefur verið ákveðið nákvæmlega hvenær hátíðin fer fram, en undirbúningur þó hafinn. Áhugasamir sem vilja taka þátt og/eða standa fyrir viðburði geta haft samband á heimir@snb.is.

Nánari upplýsingar og dagskrá birtast síðar.

Meðfylgjandi ljósmynd var tekin á Götulistahátíð á Hellissandi árið 2019. Hressir strákar á ferð.