Betri Snæfellsbæjar - hugmyndir til framkvæmda árið 2020

Snæfellsbær opnaði samráðsvettvanginn Betri Snæfellsbæ í vetur og óskaði eftir tillögum um framkvæmdir og viðhaldsverkefni frá íbúum sveitarfélagsins.

Góð þátttaka reyndist meðal íbúa og þegar upp var staðið höfðu borist 45 fjölbreyttar hugmyndir að betri Snæfellsbæ. Tæknideildin fór yfir innsendar tillögur og óskaði eftir því í kjölfarið að bæjarstjórn Snæfellsbæjar gerði ráð fyrir töluverðum fjármunum til verkefnisins í fjárhagsáætlun þessa árs.

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 5. desember síðastliðinn að veita 18 milljónum til verkefnisins. 

Eftir vinnu tæknideildar við greiningu og forgangsröðun þeirra hugmynda sem bárust verða að lágmarki tólf þeirra framkvæmdar árið 2020 og gert er ráð fyrir að nýta veitt fjármagn að fullu til framkvæmda á þeim. Aðrar hugmyndir geta þó komið til framkvæmda ef tækifæri gefst til og nýtast í skipulagsvinnu hjá Snæfellsbæ næstu árin.

Eftirfarandi hugmyndir verða framkvæmdar:

  • Hundasvæði komið upp við þéttbýliskjarna
  • Afþreying fyrir börn í Rifi bætt
  • Göngustígar við Ólafsbraut í Ólafsvík tengdir saman
  • Vegglistaverk á Hellissandi lýst upp
  • Lýsing bætt við Klifbraut
  • Handrið sett á brú við Hraðfrystihúsið á Hellissandi
  • Grenndargám komið fyrir í dreifbýli
  • Bekkjum verður fjölgað við göngustíga og áningastaði
  • Verndun fuglalífs á Rifi
  • Keflavíkurgata á Hellissandi verður fegruð og lagfærð
  • Útilíkamsræktarstöð, hönnun svæðis
  • Hjólarampur, hönnun svæðis

Nú þegar hefur eitt vegglistaverk á Hellissandi verið lýst upp. 

Hægt er að lesa frekar um fyrirhugaðar framkvæmdir vegna Betri Snæfellsbæjar hér að neðan og í viðhengi efst í frétt. Þar er einnig að finna svör við innsendum hugmyndum íbúa sem koma ekki til framkvæmda að þessu sinni.

Betri Snæfellsbær

Eftirfarandi hugmyndir verða framkvæmdar árið 2020.

Hundagerði

Allir þéttbýliskjarnar
Tæknideild tekur vel í hugmynd um hundagerði og leggur til að útbúin verði hundagerði við alla þéttbýliskjarna í Snæfellsbæ, hvert að lágmarki 600 fermetrar að stærð.

Kostnaður felst í vinnu, staurum og girðingaefni, stálhliðum, skiltum, bekkjum og ruslatunnum.

Afþreying fyrir börn í Rifi

Rif
Tæknideild tekur vel í hugmynd um bætta afþreyingu fyrir börn á Rifi og leggur til að farið verði yfir núverandi leikvöll og endurbætur gerðar á honum auk þess sem ærslabelgur verður settur upp á Rifi.

Kostnaður felst í nýrri rennibraut, ungbarnarólu, kaupum á ærslabelg og öðrum nauðsynlegum lagfæringum.

Tenging göngustíga við Ólafsbraut

Ólafsvík
Tæknideild tekur vel í hugmynd um tengingu göngustíga við Ólafsbraut í Ólafsvík og leggur til að lagður verði göngustígur frá Klifbraut að Ólafsbraut. Um væri að ræða skemmtilega tengingu við fjölfarinn stíg og einnig til að minnka umferð gangandi vegfarenda neðst í Klifbrautinni.

Kostnaður felst í jarðvinnu og efni.

Vegglistaverk lýst upp

Hellissandur
Tæknideild tekur vel í þá hugmynd að lýsa skuli upp vegglistaverk á Hellissandi og leggur til að listaverkið á gaflinum á íþróttahúsinu á Hellisandi verði lýst upp fyrr en seinna og önnur listaverk í kjölfarið ef vel gengur.

Kostnaður felst í ljóskösturum og vinnu við rafmagn.

Uppfært: Verkefni hefur þegar komist til framkvæmda.

Lýsing bætt við Klifbraut

Ólafsvík
Tæknideild tekur undir ábendingu um bætta lýsingu milli Túnbrekku og Miðbrekku og leggur til að settur verði ljósastaur efst í Klifbraut.

Kostnaður felst í kaupum á ljósastaur, jarðvinnu og strenglögn.

Handrið á brú við Hraðfrystihúsið á Hellissandi

Hellissandur
Tæknideild er sammála um nauðsyn þess að auka öryggi á brú bak við hraðfrystihúsið á Hellissandi og leggur til að útbúið verði handrið á brúna sem hentar núverandi ástandi hennar. Meta þarf hvaða lausn er best.

Kostnaður felst í vinnu og efni.

Grenndargámur í dreifbýli Snæfellsbæjar

Arnarstapi
Tæknideild tekur undir hugmynd um grenndargáma í dreifbýli Snæfellsbæjar og leggur til að lokaðir flokkunargámar verði til að byrja með settir upp á Arnarstapa.

Kostnaður felst í kaupum á flokkunarkrá frá Terra og frágangi.

Fjölgun bekkja í Snæfellsbæ

Alls staðar
Tæknideild tekur vel í hugmyndir um fjölgun bekkja í sveitarfélaginu og leggur til að fjölga skuli bekkjum við núverandi áningastaði og gönguleiðir.

Kostnaður felst í kaupum á bekkjum, hellum, grindum undir bekki og jarðvinnu.

Verndun fuglalífs á Rifi

Rif
Tæknideild er sammála ábendingu og bendir á að unnið er að lausn varðandi lækkun ökuhraða á Útnesvegi með Vegagerðinni sem hefur umsjón með veginum. Háarif og Hafnargata eru á ábyrgð Snæfellsbæjar og leggur tæknideild til að dregið verði úr ökuhraða með varanlegum hraðatakmarkandi aðgerðum.

Kostnaður felst í hraðatakmarkandi aðgerðum, t.d. kaupum á eyjum og þess háttar.

Lagfæring og fegrun Keflavíkurgötu

Hellissandur
Tæknideild tekur vel í þá hugmynd að lagfæra skuli Keflavíkurgötu á Hellissandi og leggur til að lögð verði gangstétt niður Dyngjubúð og svæði utan gangstétta á Keflavíkurgötu verði fegrað og lagfært.

Kostnaður felst í að steypa gangstétt, jarðvinnu og öðrum frágangi.

Útilíkamsræktartæki / Hreystigarður

Tæknideild tekur vel í hugmynd um útilíkamsræktarstöð í Snæfellsbæ og leggur til að farið verði í skoðun og hönnun á slíkum svæðum.

Mikilvægt að vanda til verka við staðsetningu tækja.

Kostnaður felst í hönnunarvinnu.

Hjólarampur

Tæknideild tekur vel í hugmynd um að hjólarampi verði komið upp í Snæfellsbæ og leggur til að farið verði í skoðun og hönnun á slíku svæði.

Ljóst er að nokkuð er um óhöpp á hjólarömpum og hafa sveitarfélög verið að fjarlægja slíka rampa af skólalóðum. Skoða þyrfti málið vel með öryggi og útfærslur á rampi í huga.Kostnaður felst í hönnunarvinnu.