Betri Snæfellsbær - nýr samráðsvettvangur

Í dag opnaði íbúalýðræðisvefurinn Betri Snæfellsbær þar sem íbúum sveitarfélagsins gefst tækifæri til að setja fram tillögur um málefni er varða framkvæmdir og viðhaldsverkefni í Snæfellsbæ.

Vonir standa til að hægt verði að taka á móti tillögum allt árið um kring, en til að kanna áhuga og þátttöku meðal íbúa sveitarfélagsins verður fyrsti mánuðurinn eins konar tilraunaverkefni.

Vettvangurinn er opinn öllum til skoðunar og til þátttöku gegn skráningu og samþykki notendaskilmála.

Íbúar eru hvattir til að skrá sig inn á Betri Snæfellsbær og taka þátt í uppbyggilegri umræðu og tillögugerð um framkvæmdir og viðhaldsverkefni á vegum sveitarfélagsins.

Að loknu tímabilinu tekur tæknideild Snæfellsbæjar innsendar tillögur til skoðunar og metur þær út frá gæðum, umfangi og undirtektum íbúa. Að því loknu verða þær lagðar fyrir umhverfis- og skipulagsnefnd sem taka þær til formlegrar meðferðar. Þær hugmyndir og tillögur sem fyrirhugað er að setja á fjárhagsáætlun 2020 verða sérstaklega kynntar.

Skráðir notendur taka þátt með því að setja fram hugmyndir, skoða hugmyndir annarra, rökstyðja mál, segja skoðun sína eða gefa hugmyndum og rökum vægi með því að styðja þær eða vera á móti þeim.

Við notkun á Betri Snæfellsbæ er mikilvægt að hafa í huga að Snæfellsbær er stjórnvald sem starfar eftir lögum og reglum og hefur ákveðið verksvið. Í ljósi þess er ekki sjálfgefið að unnt verði að taka allar hugmyndir til formlegar meðferðar.

Hugmyndasöfnunin fer fram frá 19. september til 19. október 2019. Íbúar eru hvattir til að vanda framsetningu og auka með því líkur á að tillagan hljóti góðan hljómgrunn.

Allir hvattir til að taka þátt!