Bókun bæjarráðs Snæfellsbæjar vegna vegamála á Snæfellsnesi og Vesturlandi

Á hádegisfundi bæjarráðs Snæfellsbæjar fyrr í dag var fjallað um ástand vega á Snæfellsnesi og á Vesturlandi. Í kjölfarið kom eftirfarandi bókun frá bæjarráði Snæfellsbæjar:

„Mikil umræða hefur verið um vegamál á Snæfellsnesi undanfarin ár, enda ástand veganna með öllu ólíðandi. Undanfarnar vikur hefur ástandið versnað til muna og er svo komið að vegakerfið er að verða stórhættulegt og stofnar öryggi vegfarenda í hættu. Það verður líka að taka tillit til þess að um þessa vegi fara ekki einungis heimamenn heldur líka ferðamenn sem hafa ekki sömu reynslu og þekkingu til að keyra á ónýtum vegum. Sjúkraflutningar og aðrir viðbragðsaðilar á svæðinu þurfa að fara um þessa vegi og mikilvægt að vegakerfið stofni þessum samgöngum ekki í hættu.

Bæjarstjórnir á Snæfellsnesi og á Vesturlandi hafa átt marga fundi það sem af er árinu með Vegagerðinni, ráðherrum og þingmönnum kjördæmisins, ásamt því að í maí 2024 var haldinn sérstakur fundur með alþingismönnum á Breiðabliki, vegna viðvarandi vandamála með vegakerfið á svæðinu. Bæjarstjóri hefur jafnframt átt fjölmörg samtöl og önnur samskipti við stjórnvöld, þingmenn og Vegagerðina vegna þessa.

Bæjarráð Snæfellsbæjar tekur heilshugar undir bókun bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar frá síðasta fundi þeirra þann 13. febrúar s.l., og lýsir yfir þungum áhyggjum af síversnandi og hættulegu ástandi þjóðvega á Snæfellsnesi, ástandi sem er að stórum hluta til komið vegna skorts á viðhlítandi viðhaldi.

Vill bæjarráð Snæfellsbæjar jafnframt benda á að þungaflutningar eru nauðsynlegir atvinnulífinu á Snæfellsnesi, eins og í öðrum sjávarbyggðum, og því er lausnin ekki sú að þeir séu takmarkaðir.

Bæjarráð Snæfellsbæjar skorar á stjórnvöld að tryggja Vegagerðinni nú þegar það fjármagn sem þarf til að gera viðvarandi úrbætur á vegakerfinu strax í vor, úrbætur sem þola nauðsynlega þungaflutninga jafnframt aukinni umferð heimamanna og ferðamanna.“

Ljósmynd: Grundarfjarðarbær