Bókun bæjarráðs vegna verkfalls leikskólakennara í Snæfellsbæ

Á hádegisfundi bæjarráðs fyrr í dag var fjallað um verkfall leikskólakennara í Snæfellsbæ. Í kjölfarið kom eftirfarandi bókun frá bæjarráði Snæfellsbæjar:

Bæjarráð Snæfellsbæjar styður þann grundvallarrétt launþega til að leggja niður störf í þeim tilgangi að knýja fram betri kjör eða önnur réttindi í kjarasamningum.

Bæjarráð lýsir þó furðu sinni á því að stjórn KÍ skuli halda til streitu verkfalli í Snæfellsbæ, þar sem einungis 6 starfsmenn af 28 eru í verkfalli að berjast einir á öllu landinu fyrir betri kjörum leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólakennara, í stað þess að fresta því þar til ný og fjölmennari verkföll byrja.

Verkfall leikskólakennara í Snæfellsbæ hefur sannarlega töluverð áhrif á foreldra og börn í sveitarfélaginu, þó verður að segjast að það hefur takmörkuð áhrif á kjarabaráttu kennara á landsvísu. Ólíklegt má telja að verkfall í Snæfellsbæ, einum og sér, geti haft mikil áhrif á stórar samningaviðræður eða kjaramál á landsvísu.“

Ljósmynd: Andre Taissin Unsplash