Bókun bæjarstjórnar um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni
17.12.2020 |
Fréttir
Á fundi bæjarstjórnar Snæfellsbæjar fyrr í dag var fjallað um nýja skýrslu Byggðastofnunar um fjölgun starfa á landsbyggðinni. Í kjölfarið kom eftirfarandi bókun frá bæjarstjórn:
„Byggðastofnun hefur nýlega gefið út skýrslu um fjölgun opinberra starfa úti á landi. Skýrslan gefur til kynna að opinberum stöfum úti á landi sé sífellt að fjölga, og er það fagnaðarefni, þó alltaf megi gera betur. Opinber störf eru stöðugildi sem greidd eru af Fjársýslu ríksins, opinberum hlutafélögum og stofnunum og þeim stofnunum sem hafa meirihluta rekstrartekna sinna af fjárlögum. Bæjarstjórn Snæfellsbæjar hefur lagt sitt af mörkum til að verja þau opinberu störf sem eru í sveitarfélaginu ásamt því að hvetja til þess að þeim sé fjölgað enn frekar. Uppbygging innviða í Snæfellsbæ undanfarin ár, kallar á enn frekari fjölgun starfa. Miklu skiptir að öflugt og fjölbreytt atvinnulíf sé til staðar. Markmiðið er alltaf að hvetja til nýsköpunar í sveitarfélaginu, bæði hjá atvinnurekendum, einstaklingum og hinu opinbera, og efla þannig fjölbreytni í atvinnulífi og auka lífsgæði íbúa. Snæfellsbær hefur undanfarið staðið í töluverðri uppbyggingu innviða, meðal annars með því að ljósleiðaravæða dreifbýli bæjarfélagsins, ásamt því að ýta á að þéttbýlið sé jafnframt ljósleiðaravætt. Ljósleiðaravæðingin gerir það að verkum að nú er það orðið raunhæfur möguleiki að bjóða upp á störf án staðsetningar. Til að ýta undir þá þróun hefur Snæfellsbær látið útbúa nokkurs konar fjarvinnslusetur, á efri hæð Félagsheimilisins Rastar á Hellissandi, þar sem fólk getur leigt sér vinnuaðstöðu. Er sú vinna á lokametrunum og styttist í að aðstaðan þar komist í gagnið. Ljósleiðaravæðingin hefur þegar skilað okkur störfum í sveitarfélagið. Bæði hafa menntaðir einstaklingar, fæddir og uppaldir í Snæfellsbæ, komið heim og getað unnið við sitt fag í sínum heimabæ, en jafnframt hafa erlendir aðilar flutt í bæjarfélagið og tekið störfin með sér hvaðan að úr heiminum. Með öflugri nettengingu hefur fólk möguleikann á því að velja sér búsetu sem heillar óháð atvinnu. Bæjarstjórn gerir sér grein fyrir því að þetta verkefni er eitthvað sem er í stöðugri endurskoðun og þróun og mun áfram leggja sitt af mörkum að störfum fjölgi í sveitarfélaginu, ásamt því að verja þau störf sem fyrir eru og efla aðstöðu til atvinnu á svæðinu.“