Bókun bæjarstjórnar vegna fjárhagsáætlunar ársins 2020
09.12.2019 |
Fréttir
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 hefur verið samþykkt af bæjarstjórn Snæfellsbæjar. Samkvæmt áætluninni verður útsvarsprósenta í Snæfellsbæ óbreytt en breytingar voru gerðar á álagningarprósentu fasteignagjalda. Álagningarprósenta vatnsgjalds húseigna í A-flokki lækkar um 9% og álagningarprósenta fráveitugjalds húseigna í A-flokki lækkar um 6,25%. Þetta er gert til að koma til móts við íbúa Snæfellsbæjar þannig að heildarfasteignagjöld hækki ekki á milli ára þrátt fyrir hækkun á fasteignamati. Smávægileg hækkun varð á gjaldskrám bæjarfélagsins.
Bæjarstjórn leggur á það áherslu að haldið verið áfram þeirri góðu þjónustu sem veitt er í sveitarfélaginu og að henni hlúð eins og kostur er. Styrkir til félagasamtaka hækka á árinu 2020 og verða kr. 64.515.000.- Að venju eru hæstu styrkirnir til íþrótta- og ungmennastarfs.
Snæfellsbær mun áfram bjóða upp á frístundastyrk til tómstundastarfs ungmenna.
Á haustmánuðum 2019 var farið í verkefnið Betri Snæfellsbær og mun 18 milljónum verða varið í það á árinu 2020 að framkvæma hluta af því sem lagt var til þar. Mikið af góðum ábendingum og tillögum kom fram frá íbúum í gegnum þetta verkefni og hefur tæknideild Snæfellsbæjar undanfarið unnið úr þeim tillögum og forgangsraðað þeim. Bæjarstjórn vill lýsa ánægju sinni með þetta framtak.
Gert er ráð fyrir miklum framkvæmdum á árinu 2020, en gert er ráð fyrir að fjárfestingar ársins verði um 423 milljónir króna, þar af 195 milljónir hjá bæjarsjóði Snæfellsbæjar og 228 milljónir hjá hafnarsjóði. Stærsta framkvæmd ársins 2020 verður lenging Norðurgarðs í Ólafsvík.
Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar er góð, og á árinu 2019 tókst að greiða upp lán en engin ný lán þurfti að taka á árinu þrátt fyrir miklar framkvæmdir á árinu 2019. Ekki er gert ráð fyrir hækkun skulda á árinu 2020, sem er gott. Gert er ráð fyrir að skuldahlutfall Snæfellsbæjar fari ekki yfir 65% í A-hluta, en skv. sveitarstjórnarlögum má skuldahlutfallið ekki fara yfir 150% og er þá Snæfellsbær vel innan marka.
Hafnarsjóður Snæfellsbæjar er vel rekinn og verða miklar framkvæmdir á hans vegum árið 2020, eins og áður kemur fram, eða um 228 m.kr. Hafnarsjóður er fjárhagslega vel stæður og skuldar engin langtímalán.
Rekstur Snæfellsbæjar hefur verið með ágætum undanfarin ár og er það að miklu leyti því að þakka hversu gott samstarf hefur verið við forstöðumenn og starfsfólk Snæfellsbæjar. Bæjarstjórn Snæfellsbæjar treystir á að samstarfið verði áfram jafngott, því einungis þannig verður hægt að ná fram góðum rekstri.
Samstarf í bæjarstjórn Snæfellsbæjar er gott og vann öll bæjarstjórn saman að gerð fjárhagsáætlunar á sérstökum vinnufundum sem haldnir voru og er full samstaða um alla liði fjárhagsáætlunar og er það afar mikilvægt að samstaða sé góð í bæjarstjórn.