Bókun bæjarstjórnar vegna fjárhagsáætlunar ársins 2021
Bæjarstjórn Snæfellsbæjar hefur unnið að gerð fjárhagsáætlunar Snæfellsbæjar fyrir árið 2021. Smávægileg hækkun verður á gjaldskrám bæjarfélagsins. Útsvarsprósenta í Snæfellsbæ verður óbreytt.
Bæjarstjórn leggur áherslu á að viðhalda þeirri góðu þjónustu sem veitt er í sveitarfélaginu og að henni hlúð eins og kostur er. Styrkir til félagasamtaka á árinu 2021 verða samtals kr. 60.355.000.- Að venju eru hæstu styrkirnir til íþrótta- og ungmennastarfs.
Snæfellsbær mun áfram bjóða upp á frístundastyrk til tómstundastarfs ungmenna.
Á haustmánuðum 2019 var ýtt úr vör verkefninu Betri Snæfellsbær og verður fjármunum varið í það á árinu 2021. Mikið af góðum ábendingum og tillögum komu fram frá íbúum í gegnum verkefnið og hefur tæknideild Snæfellsbæjar undanfarið unnið úr þeim tillögum og forgangsraðað þeim. Nú þegar er hluti tillagnanna kominn til framkvæmda og sumum lokið. Bæjarstjórn vill lýsa ánægju sinni með þetta framtak.
Gert er ráð fyrir töluverðum framkvæmdum á árinu 2021, en áætlað er að fjárfestingar ársins verði um 495 milljónir króna sem er nokkur hækkun frá fyrra ári, þar af 170 milljónir hjá bæjarsjóði Snæfellsbæjar og 325 milljónir hjá hafnarsjóði. Stærstu framkvæmdir ársins 2021 verða endurnýjun á stálþili við Norðurtangann í Ólafsvík og malbikun gatna í þéttbýli Snæfellsbæjar.
Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar er ágæt, en Covid 19 hefur þó haft mikil áhrif árið 2020. Lántökur á árinu 2020 voru nauðsynlegar sökum Covid 19 og í fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 er gert ráð fyrir lántökum að upphæð 200 milljónir króna. Í fyrsta skipti er gert ráð fyrir halla af rekstri A-hluta hjá Snæfellsbæ. Halli af rekstri ársins 2021 verður samkvæmt fjárhagsáætlun tæplega 33 milljónir og ljóst er að við þá stöðu verður ekki hægt að búa lengi. Gert er ráð fyrir að skuldahlutfall Snæfellsbæjar fari ekki yfir 70% í A-hluta, en skv. sveitarstjórnarlögum má skuldahlutfallið ekki fara yfir 150% og er þá Snæfellsbær vel innan þeirra marka.
Hafnarsjóður Snæfellsbæjar er vel rekinn og verða miklar framkvæmdir á hans vegum árið 2021, eins og áður kemur fram, eða um 325 milljónir króna. Hafnarsjóður er fjárhagslega vel stæður og skuldar engin langtímalán.
Rekstur Snæfellsbæjar hefur verið með ágætum undanfarin ár, ljóst er þó að árið 2020 verður undantekning þar á og jafnframt árið 2021. Hversu vel hefur gengið fram að þessu er að miklu leyti því að þakka hversu gott samstarf hefur verið við forstöðumenn og starfsfólk Snæfellsbæjar og jákvæð ytri skilyrði. Bæjarstjórn Snæfellsbæjar treystir á að samstarfið verði áfram farsælt, því einungis þannig verður hægt að ná fram góðum rekstri hjá sveitarfélaginu.
Ljóst er að það mun þrengja að í rekstrinum fjárhagslega á árinu 2021. Það ástand sem í heiminum er vegna Covid 19 hefur þar mest áhrif. Þar sem um tímabundið ástand er að ræða, tók bæjarstjórn þá ákvörðun að fara ekki í mikinn niðurskurð á framkvæmdum og jafnframt að halda áfram óbreyttum rekstri stofnana sveitarfélagsins. Fjárfestingar munu því hækka milli ára eins og fyrr segir og verða tæpar 500 milljónir króna.
Samstarf í bæjarstjórn Snæfellsbæjar er gott og er það afar mikilvægt á tímum sem þessum. Bæjarstjórn vann saman að gerð fjárhagsáætlunar á sérstökum vinnufundum og er full samstaða um alla liði fjárhagsáætlunar.
Til upplýsingar: