Bókun bæjarstjórnar vegna fjárhagsáætlunar 2024

Fjárhagsáætlun Snæfellsbæjar, A- og B-hluta stofnana, fyrir árið 2024 var samþykkt samhljóða á bæjarstjórnarfundi í gær, fimmtudaginn 7. desember 2023. Bæjarstjórn lagði fram eftirfarandi bókun. Neðst í frétt má finna hlekk á fjárhagsáætlun vegna ársins 2024.

Bókun bæjarstjórnar:

„Bæjarstjórn Snæfellsbæjar hefur í sameiningu unnið að gerð fjárhagsáætlunar Snæfellsbæjar fyrir árið 2024. Samstarf bæjarstjórnar hefur verið gott í þessari vinnu og samstaða verið um breytingar á gjaldskrám, styrkveitingar og framkvæmdaliði fyrir árið 2024.

Verðbólga ársins 2023 fór töluvert fram úr spám Hagstofunnar og telur bæjarstjórn þörf á að mæta þeim kostnaði sem sú verðbólga hefur valdið með gjaldskrárhækkunum. Verðbólgan hefur verið í kringum 9% á árinu, og munu gjaldskrár Snæfellsbæjar hækka um 7-10% á árinu 2024.

Töluverðar breytingar verða á árinu 2024 varðandi sorpmál í Snæfellsbæ og tekur gjaldskrá sorphirðu- og sorpeyðingargjalda mið af því. Helstu breytingar verða þær að frá og með 1. apríl þá verður fólk að flokka í fjóra flokka heim við hús og fara með tvo sorpflokka á grenndarstöðvar. Jafnframt er ljóst að sá kostnaður sem verður við sorpmál í Snæfellsbæ mun hækka vegna krafna um aukna flokkun. Fram til þessa hafa íbúar ekki verið að borga þann kostnað beint sem verður vegna sorpmála en það er ekki í samræmi við lög og reglugerðir. Því þarf bæjarstjórn að bregðast við því og hækka gjöld vegna sorpmála. Bæjarstjórn gerir sér fulla grein fyrir að þetta eru miklar hækkanir en á móti má segja að fram til þessa hafi verið reynt að halda gjöldum vegna sorpmála í algjöru lágmarki. Nú verður því miður ekki lengur hægt að komast hjá hækkunum.

Gjaldskrá fasteignagjalda tekur engum breytingum milli ára. Breytingar voru gerðar á álagningarprósentu vatns og holræsis í gjaldskrá fyrir árið 2023 og halda þær breytingar sér á árinu 2024. Sú breyting var samt sem áður gerð á gjaldskrá fasteignagjalda að gjalddögum var fjölgað úr 8 í 10 og verða á árinu 2024 frá 1. febrúar til 1. nóvember.

Afsláttur fasteignaskatts til elli- og örorkulífeyrisþega hækkar, ásamt viðmiðunarmörkum tekna, sem nemur launavísitölu ársins.

Útsvarsprósenta í Snæfellsbæ verður óbreytt, en þó með fyrirvara um breytingar á lögum frá Alþingi um útsvarsprósentur sveitarfélaga vegna málefna fatlaðs fólks.

Bæjarstjórn leggur áherslu á að viðhalda þeirri góðu þjónustu sem veitt er í sveitarfélaginu og að henni hlúð eins og kostur er. Styrkir til félagasamtaka á árinu 2024 verða um 64,8 milljónir. Eins og áður hefur komið fram, þá blasti töluverður vandi við bæjarstjórn við úrvinnslu styrkja þar sem beiðnir bárust fyrir um á annað hundrað millj. króna. Ljóst var að ekki var mögulegt að verða við öllum beiðnum og því þurfti að forgangsraða.

Snæfellsbær mun áfram bjóða upp á frístundastyrk til tómstundastarfs ungmenna og á árinu 2024 mun sá styrkur hækka úr kr. 30.000.- á barn í kr. 33.000.-, og fylgir hann launavísitölu. Jafnframt var aldursbilið víkkað í báðar áttir, en nú gildir frístundastyrkur fyrir öll börn og ungmenni með lögheimili í Snæfellsbæ á aldrinum 0-20 ára. Nýjar reglur um frístundastyrki má finna á heimasíðu Snæfellsbæjar.

Snæfellsbær verður 30 ára á árinu 2024 og í tilefni af því hefur markaðs- og kynningarfulltrúi Snæfellsbæjar verið í samstarfi við samstarfsmenn Erró um að setja upp listaverk eftir hann í nágrenni Pakkhússins í Ólafsvík næsta vor í tilefni tímamótanna.

Svigrúm til framkvæmda er ágætt. Áfram er gert er ráð fyrir því að stór hluti framkvæmda ársins 2024 verði í viðhaldsframkvæmdum á húsnæði bæjarins. Samtals er gert ráð fyrir um 170 milljónum í viðhalds- og framkvæmdaverkefni á stofnunum bæjarins, þar sem stærstu einstöku verkefnin verða viðgerðir á þaki íþróttahússins í Ólafsvík og félagsheimilinu Klifi. Jafnframt er gert ráð fyrir framkvæmdum við viðbyggingu á leikskólanum Krílakoti í Ólafsvík, stækkun á inngangi á Jaðri, ásamt öðrum smærri viðhalds- og framkvæmdarverkefnum. Stærsta einstaka fjárfesting ársins 2024 verður hins vegar kaup á gámastöðinni Enni í Ólafsvík, sem er hluti af fyrirhuguðum breytingum í sorpmálum.

Samtals er gert ráð fyrir að fjárfestingar ársins verði rúmar 593 milljónir króna, þar af um 318 milljónir hjá bæjarsjóði Snæfellsbæjar og rúmar 275 milljónir hjá Hafnarsjóði.

Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar er ágæt. Gert var ráð fyrir lántöku upp á 100 milljónir í fjárhagsáætlun ársins 2023, en ekki hefur verið nauðsynlegt að nýta þá heimild. Snæfellsbær er því ekki að auka við lán á árinu 2023, heldur lækka lán sín töluvert á raunvirði. Á árinu 2024 er ekki gert ráð fyrir nýjum lántökum, þrátt fyrir töluverðar fjárfestingar.

Fjárhagsáætlun ársins 2024 gerir ráð fyrir að skila rekstrarafgangi upp á rúmar 105 milljónir hjá A-hluta sjóðum, en um 167 milljónum hjá samanteknum A- og B-hluta sjóðum. Það þýðir að reksturinn gefur ákveðið svigrúm til fjárfestinga og því þarf ekki að fjármagna fjárfestingar ársins með lántöku. Skuldahlutfall Snæfellsbæjar í ársreikningi 2022 var 74% hjá A-hluta og 61,36% hjá samanteknum reikningi A- og B-hluta, en ef notað er skuldaviðmið skv. reglum um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga, þá fer prósentan niður í 49,55% hjá A-hluta og 37,4% fyrir samstæðuna. Þar sem engin lán voru tekin á árinu 2023 er gert ráð fyrir að skuldahlutfall Snæfellsbæjar verði enn lægra í árslok 2023 og jafnframt er gert ráð fyrir að það lækki enn frekar á árinu 2024 þar sem ekki er gert ráð fyrir neinni lántöku. Rétt er að taka fram að skv. sveitarstjórnarlögum má skuldahlutfall sveitarfélaga ekki fara yfir 150% og telst því Snæfellsbær mjög vel statt sveitarfélag.

Hafnarsjóður Snæfellsbæjar er vel rekinn og verða miklar framkvæmdir á hans vegum árið 2024, eins og áður kemur fram, eða um 275 milljónir króna. Hafnarsjóður er fjárhagslega vel stæður og skuldar engin langtímalán. Ekki er gert ráð fyrir neinum lántökum hjá Hafnarsjóði á árinu 2024.

Rekstur Snæfellsbæjar hefur verið með ágætum. Ljóst er þó að kjarasamningar eru flestir lausir nú í lok mars, sem gerir það að verkum að rennt er blint í sjóinn með áætlun launa fyrir árið 2024. Hagstofan gerir ráð fyrir ríflega 7% hækkun launavísitölu á árinu 2024 og er það viðmiðið sem notað er í fjárhagsáætlun Snæfellsbæjar. Rekstur stofnana hefur gengið mjög vel á árinu 2023 og er að miklu leyti því að þakka hversu gott samstarf hefur verið við forstöðumenn og starfsfólk Snæfellsbæjar. Bæjarstjórn Snæfellsbæjar treystir á að samstarfið verði áfram farsælt, því einungis þannig verður hægt að ná fram góðum rekstri og veita góða þjónustu hjá sveitarfélaginu.

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkir samhljóða framlagða fjárhagsáætlun Snæfellsbæjar og stofnana fyrir árið 2024."

Nánar: