Breyting á sorphirðu og hækkun sorpgjalda
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, ritaði grein sem birtist í Bæjarblaðinu Jökli í síðustu viku. Umfjöllunarefni greinarinnar er breyting á sorphirðu í sveitarfélaginu og hækkun sorpgjalda. Greinin er birt í heild sinni hér á vefsíðu Snæfellsbæjar.
Ágætu íbúar.
Á þessu ári verð miklar breytingar gerðar á sorphirðu í Snæfellsbæ og jafnframt verður mikil hækkun á sorpgjöldum.
Á liðnu ári var unnið að þeim breytingum sem koma til með að koma til framkvæmda frá og með 1. apríl 2024. Snæfellsbær réð til sín sérfræðinga sem aðstoðuðu okkur við að skipuleggja hið nýja fyrirkomulag í sorpmálunum ásamt því að þeir undirbjuggu sorpútboðið fyrir okkur.
Nú er gerð krafa á landsvísu um flokkun á sorpi í sex flokka. Mun Snæfellsbær verða með fjóra af þeim flokkum heima við hús og tvo flokka á grenndarstöðvum sem komið verður upp í sveitarfélaginu.
Í lögum er kveðið á um það að sveitarfélög megi ekki borga með umsýslu á sorpi í sveitarfélaginu og á að innheimta hjá íbúum allan þann kostnað sem til fellur vegna sorpmála. Hjá okkur hefur þetta ekki verið svo. Sorpgjöldin í Snæfellsbæ hafa aldrei náð að dekka nema tæp 50% af þeim kostnaði sem fellur til.
Staðan er því þannig í dag að sorpgjöldin hjá okkur í Snæfellsbæ munu hækka hjá íbúðareigendum úr kr. 41.500.- í kr. 90.000.-, en hjá sumarhúsaeigendum úr kr. 16.000.- í kr. 35.000.- Ný gjaldskrá fyrir sorphirðu í Snæfellsbæ er auglýst í Bæjarblaðinu Jökli í dag.
Við gerum okkur grein fyrir að þetta eru miklar hækkanir, en því miður ráðum við litlu um þetta þar sem búið er að leggja gríðarlega auknar kröfur um flokkun sorps á sveitarfélögin, og eftir þessum kröfum verður Snæfellsbær að fara eftir. Okkar staða er ekkert einsdæmi, heldur er þetta svona um allt land því miður.
Þann 21. janúar verður opnað útboð á sorphirðu hjá okkur og gerum við það í samstarfi við Grundarfjarðarbæ í þeirri von að við fáum hagstæðari tilboð. Verði tilboðin mjög hagstæð þá skapast hugsanlega möguleiki á að lækka gjöldin og mun Snæfellsbær gera það ef svigrúm skapast.
Snæfellsbær hefur þegar fest kaup á húsnæði og aðstöðu Terru á Ennisbrautinni, móttökustöðinni Enni, en þar verður áfram móttaka á sorpi í sveitarfélaginu óháð því hver hreppir útboðið.
Búið er að kaupa nýjar viðbótartunnur sem dreift verður á heimili í sveitarfélaginu nú í vor. Jafnframt verða allar tunnur sem þegar eru heima við hús endurmerktar til að fólk geti flokkað rétt heima hjá sér.
Sú breyting sem verður við heimili fólks er sú að það verða 3 tunnur við hvert hús, í stað tveggja nú. Í tunnunni fyrir almennt sorp verður önnur tunna fyrir lífrænan úrgang, svokallað tunna í tunnu kerfi, þannig að við heimilin verða fjórir flokkar þ.e. almennt sorp, lífrænt, pappi og plast. Áður en komið verður með tunnurnar í vor þá íbúar látnir vita og enn betur verður farið yfir þessar breytingar.
Snæfellsbær mun jafnframt setja upp grenndarstöðvar þar sem fólk getur komið með það sorp sem ekki verður flokkað í tunnur heima við hús, en þeir flokkar eru járn og gler. Þegar þetta er skrifað þá er stefnt á að setja upp slíka aðstöðu í þéttbýlinu í Snæfellsbæ, á Hellnum og á Arnarstapa en hvar þær verða nákvæmlega munum við upplýsa íbúa um þegar nær dregur.
Gert er ráð fyrir að nýja fyrirkomulagið taki gildi hjá okkur frá og með 1. apríl eins og áður segir en við gerum okkur grein fyrir að það gæti tekið aðeins lengri tíma. Við vonum hins vegar það besta.
Tíðnin á sorphirðunni mun einnig taka breytingum. Almennt og lífrænt sorp verður losað á þriggja vikna fresti frá september til maí, en á tveggja vikna fresti frá júní til ágúst, eins og er í dag. Losun á pappír og plastumbúðum verður á fimm vikna fresti. Ástæður fyrir því að við breytum þessum er að með aukningu á fjölda íláta heima við hús þá verður ekki þörf fyrir eins mikla tíðni í losun eins og er í dag.
Margar áskoranir fylgja þessum miklu breytingum en við erum í engum vafa um að það muni takast vel hjá okkur með góðri samvinnu við íbúa sveitarfélagsins.
Frekari fréttir af sorpmálum munum við síðan setja inn þegar nær dregur umskiptunum.
Kristinn Jónasson, bæjarstjóri