Dýpkunarframkvæmdir fyrirhugaðar í Ólafsvík og Rifi

Hafnarsjóður Snæfellsbæjar fær 130 milljónir króna til dýpkunarframkvæmda í Ólafsvík og Rifi.

Alþingi samþykkti nýverið aðgerðapakka ríkisstjórnarninnar vegna kórónaveirufaraldursins sem felur í sér að ráðist verði í ýmsar framkvæmdir og fjárfestingar á þessu ári. Framkvæmdir við dýpkun í Ólafsvík og Rifi falla í þennan flokk og er áætlað að framkvæmdir hefjist í sumar, en dýpkað verður bæði í innsiglingum og innan hafnanna.

Unnið er að útboðsgögnum þessa dagana, m.a. er verið að vinna úr dýptarmælingum og ákveða hvaða svæði verða dýpkuð en stefnt er að því að útboð vegna framkvæmdanna verði auglýst í maí n.k.