Ert þú í ferðaþjónustu?

Í vor fer Ferðamálastofa í gang með nýtt hvatningarátak þar sem Íslendingar eru hvattir til að ferðast innanlands í ár og kaupa vörur og þjónustu.

Átakið verður keyrt á helstu miðlum með áherslu á net- og samfélagsmiðla og verður umferð beint inn á vefsíðuna ferdalag.is, þar sem hægt er að nálgast upplýsingar um fjölbreytta ferðaþjónustu um allt land. Ferðaþjónustuaðilar eru hvattir til að fara yfir upplýsingar um fyrirtæki og þjónustu á vefsíðunni og senda póst á netfangið ferdalag@ferdamalastofa.is ef breyta þarf einhverju frá fyrri skráningu. Það er áríðandi að þetta verði gert sem fyrst þar sem átakið hefst í þessum mánuði.

Eins er mikilvægt er að ferðaþjónustufyrirtæki hér í Snæfellsbæ nýti næstu vikur til að huga að breyttum aðstæðum og aðlagi markaðsefni á íslensku.

Ef eitthvað er óljóst má hafa samband við markaðs- og upplýsingafulltrúa Snæfellsbæjar, heimir@snb.is. Nánar má lesa um hvatningarátakið á vefsíðu Ferðamálastofu.