Félagsmiðstöð unglinga flytur í Líkn á Hellissandi

Félagsmiðstöðin Afdrep flytur í húsnæðið Líkn á Hellissandi snemma á næsta ári.

Félagsmiðstöðin hefur verið í leiguhúsnæði undanfarin ár en fær nú varanlegt heimili í nýjum húsakynnum. Líknin hefur fjölmarga kosti og hentar skipulag hússins ágætlega fyrir fjölbreytta starfsemi félagsmiðstöðvarinnar. Munar þar mest um að húsnæðið er í eigu sveitarfélagsins og því verður hægt að fara í breytingar sem henta starfinu og getur þróast með tíð og tíma. Þá geta unglingarnir einnig haft bein áhrif á uppbyggingu félagsmiðstöðvarinnar á nýjum stað með sínum hugmyndum og gert húsið að sínu með eigin hugmyndum.

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkti flutninginn á fundi sínum þann 17. desember að undangengnum skoðunarferðum í þau húsnæði bæjarins sem talin voru henta félagsmiðstöðinni.