Félagsstarf eldri borgara í Klifi lagt niður til 15. apríl

Í ljósi nýjustu upplýsinga frá viðbragðsaðilum og heilbrigðisyfirvöldum hefur Snæfellsbær, í fullu samráði við stjórn Félags eldri borgara í Snæfellsbæ, ákveðið að loka tímabundið á félagsstarf eldri borgara sem haldið er í Klifi á miðvikudögum, til 15. apríl nk. Allt annað félagsstarf eldri borgara verður óbreytt að svo stöddu.

Þetta er gert í kjölfar þess að heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að virkja heimildir sóttvarnarlaga til að takmarka samkomur tímabundið í fjórar vikur frá og með næsta mánudegi til að hægja á útbreiðslu COVID-19. Þrátt fyrir að þar sé horft til viðburða þar sem fleiri en hundrað manns koma saman er þessi ráðstöfun tekin með hagsmuni eldri borgara að leiðarljósi.