Fjárhagsáætlun Snæfellsbæjar 2019

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, skrifaði um fjárhagsáætlun ársins í nýjasta tölublaði af Jökli og er greinin einnig birt hér. Hér er hægt að lesa ný sem gömul eintök af Jökli.

---

Í lok síðasta árs samþykkti bæjarstjórn Snæfellsbæjar fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 og mun ég hér fara yfir helstu þætti hennar og jafnframt segja frá stærstu fjárfestingum á árinu.

Fjórða árið í röð eru gjaldskrár leikskóla og grunnskóla ekki hækkaðar. Á nokkrum gjaldskrám varð smávægileg hækkun. Útsvarsprósenta í Snæfellsbæ verður óbreytt og sama er að segja um álagningarprósentu fasteignagjalda.

Styrkir til félagasamtaka hækka

Í fjárhagsáætlun leggur bæjarstjórn á það áherslu að haldið verið áfram þeirri góðu þjónustu sem veitt er í sveitarfélaginu og að henni hlúð eins og kostur er. Styrkir til félagasamtaka hækka mikið á árinu 2019 eða um 42,5% á milli ára. Styrkir á árinu 2019 verða kr. 59.635.000.-  Að venju eru hæstu styrkirnir til íþrótta- og ungmennastarfs. Stærstu styrkirnir eru eins og áður segir til íþróttamála en þeir verða kr. 39,8 milljónir á árinu. Til sjómannagarðanna fara kr. 6,7 milljónir. Til Frystiklefans fara kr. 4 milljónir. Til björgunarsveitanna fara kr. 2,35 milljónir. Til skógræktarfélaganna fara kr. 1,3 milljónir.

Það má jafnframt geta þess að á árinu 2019 verða í fyrsta skipti teknir upp frístundastyrkir í Snæfellsbæ. Markmiðið með þessu, ásamt því að hækka ekki gjaldskrár skóla, leikskóla og sundlaugar, er að gera búsetu í Snæfellsbæ auðveldari fyrir ungt fólk og barnafjölskyldur.

Framkvæmdir ársins

Gert er ráð fyrir miklum framkvæmdum á árinu 2019, en gert er ráð fyrir að fjárfestingar ársins verði 419,3 milljónir króna, þar af 174,5 milljónir hjá bæjarsjóði Snæfellsbæjar og 244,8 milljónir hjá hafnarsjóði. Stærstu fjárfestingar bæjarsjóðs á árinu eru gatna- og gangstéttaframkvæmdir, en gert er ráð fyrir 85 millj. þar.

Þær helstu eru malbiksframkvæmdir fyrir kr. 40 milljónir, gatnagerð í Sandholti fyrir kr. 30 milljónir og gangstéttaframkvæmdir fyrir kr. 15 milljónir. Einnig verða keyptir tveir ærslabelgir og er kostnaður við þá framkvæmd áætluð 5,5 milljónir króna.

Í Grunnskóla Snæfellsbæjar verður farið í að laga þak grunnskólans á Hellissandi og er það kostnaður upp á 5,5 milljónir króna einnig verður farið í lagfæringu á salernum nemenda í Ólafsvík og er kostnaður við það kr. 5 milljónir. Farið verður í að klæða tvær hliðar á bókasafni / tónlistarskólanum í Ólafsvík og gert er ráð fyrir að kostnaður við það verði kr. 4,5 milljónir. Farið verður í umhverfisframkvæmdir á Hellissandi og gert er ráð fyrir kr. 7 milljónum í þær framkvæmdir. Settar eru kr. 5 milljónir í hönnun á hreinsikerfum útrása (holræsum) í þéttbýli Snæfellsbæjar.

Stærstu fjárfestingar hafnarsjóðs á árinu verða lenging Norðurgarðs í Ólafsvík en kostnaður við þá framkvæmd er áætlaður kr. 114,7 milljónir. Gert ráð fyrir um 54 milljónum í dýpkun á Arnarstapa. Farið verður í lagfæringu á hafnarhúsinu í Ólafsvík ásamt stækkun en kostnaður við þá framkvæmd er áætlaður kr. 32 milljónir. Farið verður í malbiksframkvæmdir á hafnarsvæðunum og gert er ráð fyrir að það muni kosta 31,9 milljónir. Farið verður í framkvæmdir við plan við uppsátur í Rifi og er kostnaður við það 2,7 milljónir. Auk þess verður farið í ýmsar aðrar framkvæmdir hjá hafnarsjóði og aðrar smærri framkvæmdir hjá Snæfellsbæ, en meginmarkmið ársins verður að styrkja innviði stofnana Snæfellsbæjar.

Góð fjárhagsstaða

Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar er góð, ekki er gert ráð fyrir hækkun skulda á árinu 2019, sem er gott. Gert er ráð fyrir að skuldahlutfall Snæfellsbæjar fari ekki yfir 70% í A-hluta en skv. sveitarstjórnarlögum má skuldahlutfallið ekki fara yfir 150% þannig að Snæfellsbær er þar vel innan marka. Hafnarsjóður Snæfellsbæjar er vel rekinn og verða miklar framkvæmdir á hans vegum árið 2019, eins og áður kemur fram, eða tæpar 245 m.kr. Hafnarsjóður er fjárhagslega vel stæður og skuldar engin langtímalán.

Rekstur Snæfellsbæjar hefur verið með ágætum undanfarin ár og er það ekki síst að þakka góðu samstarfi við starfsfólk og forstöðumenn Snæfellsbæjar. Áframhaldandi árangur byggir á því sama og Bæjarstjórn Snæfellsbæjar hlakkar til áframhaldandi samstarfs.