Fjármagn veitt til verkefnisins Betri Snæfellsbær
Bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkti samhljóða á fundi sínum í vikunni að veita töluverðum fjármunum til framkvæmda á tillögum sem bárust frá íbúum í gegnum verkefnið Betri Snæfellsbær.
Litið var á þessa fyrstu hugmyndasöfnun sem eins konar þróunarverkefni til að kanna áhuga og þátttöku meðal íbúa og stóð þeim til boða að senda inn tillögur frá 19. september til 19. október. Skemmst er að segja frá því að þátttaka meðal íbúa reyndist góð og bárust 45 tillögur sem tæknideildin hefur nú til meðferðar.
Vegna góðrar þátttöku íbúa og eftir frumskoðun á hugmyndum lagði tæknideildin til að í fjárhagsáætlun næsta árs yrði gert ráð fyrir töluverðum framkvæmdakostnaði vegna Betri Snæfellsbæjar. Bæjarstjórn samþykkti það samhljóða og lýsti yfir ánægju með verkefnið.
Þær hugmyndir og tillögur sem verða framkvæmdar árið 2020 og settar á fjárhagsáætlun verða kynntar sérstaklega þegar vinnu er að fullu lokið.