Frístundastyrkur Snæfellsbæjar hækkar um áramótin og aldursbil breikkar

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar hefur samþykkt að hækka upphæð frístundastyrks fyrir hvert barn í 33.000 krónur á ári og víkka aldursbilið í báða enda.

Frístundastyrkur var fyrst tekinn upp hjá Snæfellsbæ árið 2019 og hljóðaði þá upp á 20.000 krónur á ári og gilti til niðurgreiðslu þátttökugjalda í skipulögðu íþrótta- og tómstundarstarfi barna og unglinga á aldrinum 5 - 18 ára.

Frá 1. janúar 2024 styrkir Snæfellsbær íþrótta- og tómstundastarf barna og ungmenna um 33.000 krónur á ári. Frístundastyrkurinn verður jafnframt ætlaður 0 - 20 ára börnum og ungmennum með lögheimili í Snæfellsbæ.

Markmið með frístundastyrknum er að hvetja börn og ungmenni til þátttöku í skipulögðu frístundastarfi í Snæfellsbæ og veita þeim tækifæri til þess óháð efnahag og félagslegum aðstæðum.