Fyrsti fundur bæjarstjórnar á nýju kjörtímabili

Fimmtudaginn 2. júní kom bæjarstjórn Snæfellsbæjar saman til fyrsta fundar á nýju kjörtímabili. Bæjarstjórn skipa nú Auður Kjartansdóttir, Björn H. Hilmarsson, Fríða Sveinsdóttir, Jón Bjarki Jónatansson, Júníana Björg Óttarsdóttir, Margrét Sif Sævarsdóttir og Michael Gluszuk.

Á fundinum var Björn H. Hilmarsson kosinn forseti bæjarstjórnar til eins árs, Michael Gluszuk fyrsti varaforseti og Júníana Björg Óttarsdóttir annar varaforseti, til sama tíma. Í bæjarráði næsta árið verða Júníana Björg Óttarsdóttir, Auður Kjartansdóttir og Fríða Sveinsdóttir. Jafnframt var gengið frá ráðningu við Kristinn Jónasson, bæjarstjóra, til næstu fjögurra ára.

Almenn fundarstörf á fyrsta fundi bæjarstjórnar eru m.a. þau að skipa í nefndir og ráð bæjarfélagsins næstu fjögur árin. Munu bæjarstjóri og bæjarritari í framhaldinu kalla allar nefndir til fyrsta fundar í Ráðhúsinu. Óskuðu bæjarfulltrúar nýjum nefndarmönnum til hamingju og jafnframt vildu þau koma á framfæri þakklæti til þeirra aðila sem setið hafa í nefndum fyrir Snæfellsbæ undanfarið kjörtímabil en eru nú að hverfa frá nefndarstörfum.

Á myndinni eru frá vinstri: Kristinn Jónasson, bæjarstjóri, Michael Gluszuk, Fríða Sveinsdóttir, Patryk Zolobow sem kom inn sem varamaður Margrétar Sifjar Sævarsdóttur, Björn H Hilmarsson, Júníana Björg Óttarsdóttir, Jón Bjarki Jónatansson og Auður Kjartansdóttir.