Gífurleg aukning umferðar á Snæfellsnesi á undanförnum áratug
22.11.2024 |
Fréttir
Gífurleg aukning umferðar hefur verið á Snæfellsnesi á undanförnum áratug.
Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar hefur umferð aukist um allt að 246% við Hraunsmúla í Staðarsveit frá 2013 - 2023. Við Hraunsmúla er Vegagerðin með umferðarteljara þar sem sjá má að árið 2013 var meðalumferð á sólarhring yfir árið 308 bílar. Árið 2023 var meðalumferð á sama stað 743 bílar á sólarhring, eða sem nemur 241% aukningu. Yfir sumartímann hefur bílum fjölgað að meðaltali úr 585 bílum í 1.248 bíla á sama tímabili, eða sem nemur 213% aukningu. Yfir vetrartímann hefur umferð aukist um 246%, eða úr 131 bílum á sólarhring í 322 bíla.
Svipaða sögu má segja frá mælingum við Hafursfell í Eyja- og Miklaholtshreppi. Þar hefur umferð aukist um 195% á undanförnum áratug. Þar af hefur meðalumferð yfir sumartímann þyngst um 1.027 bíla að meðaltali á sólarhring. Árið 2013 var meðalumferð yfir sumartímann 1.099 bílar, en árið 2023 voru þeir 2.126. Vetrarumferð skv. þeim teljara hefur aukist um 169% og meðalumferð þegar horft er á árið í heild hefur aukist um 669 bíla á sólarhring að meðaltali.
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum hefur umferð vaxið árlega frá 2013 ef frá er talinn samdráttur í kjölfar heimsfaraldurs, og hefur umferð nú þegar náð þeim umferðarþunga sem mest lét og ekki annað að sjá en að umferðin haldi áfram að þyngjast á næstu árum.