Góð aðsókn á tjaldsvæði Snæfellsbæjar sumarið 2024

Tjaldsvæði Snæfellsbæjar í Ólafsvík og á Hellissandi njóta mikilla vinsælda og eykst fjöldi gesta með hverju með hverju ári.

Þegar fjöldi gesta á tjaldsvæðunum á liðnu sumri er tekinn saman kemur í ljós að þeim hefur fjölgað frá síðasta ári og tímabilið að lengjast. Í heild dvöldu 19.471 gestir á tjaldsvæðunum tveimur í sumar og hefur farið vaxandi með hverju ári síðastliðinn áratug ef frá eru skilin ár heimsfaraldurs.

Þess má geta að Snæfellsbær leitast sífellt eftir því að bæta þá aðstöðu og þjónustu sem finna má á tjaldsvæðunum og eru það sannarlega góðar fréttir og ánægjulegar að æ fleiri gestir sem kjósa þennan gistimöguleika sæki Snæfellsbæ heim.

Á Hellissandi er tjaldsvæðið í Sandahrauni, með útsýni yfir Snæfellsjökul og Krossavík, í næsta nágrenni við Snæfellsjökulsþjóðgarð. Í Ólafsvík er það staðsett neðst í fallegri hlíð við útjaðar bæjarins með gott útsýni yfir dalinn og í nágrenni við skógræktina í Ólafsvík.

Á tjaldsvæðunum má finna eftirfarandi þjónustur:

  • Klósett (aðgengi fyrir fatlaða)
  • Sturta (aðgengi fyrir fatlaða í Ólafsvík)
  • Heitt og kalt vatn
  • Eldunaraðstaða
  • Vaskarými
  • Úrgangslosun
  • Rafmagn/rafmagnstenglar
  • Internet
  • Frisbígolfvöll
  • Leikvellir fyrir börn
  • Þjóðgarðsmiðstöð með aðgengi að klósettum allan sólarhringinn og upplýsingagjöf og þjónustu á opnunartíma (á Hellissandi).