Góð aðsókn í tjaldsvæði Snæfellsbæjar í sumar
04.11.2021 |
Fréttir
Tjaldsvæði Snæfellsbæjar í Ólafsvík og Hellissandi njóta mikilla vinsælda yfir sumartímann.
Í heildina dvöldu 10.140 gestir á tjaldsvæðunum tveimur í sumar og fjölgaði um rúm 87,3% frá síðasta sumri, en hafa verður í huga að á síðasta ári voru óvenjufáir ferðamenn á landinu vegna kórónaveirufaraldursins.
Í sumar var áberandi mest að gera í ágúst, en þann mánuð dvöldu á tjaldsvæðunum 3617 gestir. Það er þó einkum gestafjöldi í september sem vekur athygli, en þá dvöldu 2225 á tjaldsvæðunum og er það nokkurn veginn á pari við árin 2017, 2018 og 2019 þegar umtalsvert fleiri ferðamenn komu til landsins en nýliðið sumar. Vekur það vonir um að aðsókn gesta verði meiri á næsta ári og e.t.v. nær heildarfjöldanum á árunum fyrir kórónaveiru.
Þess má geta að tjaldsvæðin eru bæði á fallegum stöðum og hefur Snæfellsbær leitast eftir því að bæta aðstöðu og þjónustu eins og kostur er á síðustu árum. Á Hellissandi er tjaldsvæðið í Sandahrauni, með útsýni yfir Snæfellsjökul og Krossavík, í næsta nágrenni við Þjóðgarðinn Snæfellsjökul. Í Ólafsvík er það staðsett neðst í fallegri hlíð við útjaðar bæjarins með gott útsýni yfir dalinn og í nágrenni við skógræktina í Ólafsvík.
Á báðum tjaldsvæðunum má finna stórt þjónustuhús og eftirfarandi þjónustu:
- Klósett (aðgengi fyrir alla)
- Sturta (aðgengi fyrir alla)
- Heitt og kalt vatn
- Eldunaraðstaða
- Vaskarými
- Úrgangslosun
- Rafmagn/rafmagnstenglar
- Internet
- Leikvellir
- Frisbígolfvelli
- Gönguleiðir