Götulistahátíð á Hellissandi um helgina
Næstu helgi verður haldin fyrsta alþjóðlega götulistahátíðin í Snæfellsbæ. Það er Frystiklefinn sem hefur unnið að skipulagi hátíðarinnar síðstu mánuði og hefur nú birt dagskrá, sjá meðfylgjandi mynd.
Hátíðin er hluti af samningi sem Frystiklefinn og Snæfellsbær gerðu með sér í upphafi þessa árs. Samningurinn felur m.a. í sér að Frystiklefinn haldi alþjóðlegar hátíðir á sviði kvikmynda-, tónlistar- og götulistaverka sem íbúar Snæfellsbæjar geta sótt sér að kostnaðarlausu. Hátíðin um helgina fellur í síðastnefnda flokkinn.
Götulistahátíðin verður haldin á Hellissandi um n.k. helgi og má búast við lifandi stemningu um allan bæ. Skipulögð dagskrá fer þó að mestu leyti fara fram við Höskuldará þar sem verða leiksýningar, danssýningar, tónlistaratriði, andlitsmálun, hoppukastalar, ærslabelgur, flóamarkaður og ýmislegt fleira. Þá má ekki gleyma að minnast á öll listaverkin sem máluð hafa verið á hús í bænum, en þau telja nú um 30 talsins og það nýjasta, á húsgafli gamla íþróttahússins á Hellissandi, hefur nú þegar vakið mikla athygli.
Stuð og stemning á Hellissandi um helgina - höfuðborg götulistaverka á Íslandi.