Grunnskóli Snæfellsbæjar verður símalaus skóli

Frá og með föstudeginum 1. apríl verður Grunnskóli Snæfellsbæjar símalaus skóli. Óskar skólinn eftir góðu samstarfi við foreldra og að símarnir séu geymdir heima.

Úr fréttabréfi skólans, 30. mars, þar sem þetta var tilkynnt foreldrum og forráðamönnum:

„Við kynntum þessa hugmynd strax í haust en vegna Covid fannst okkur ekki ráðlegt að fara í þetta bann fyrr. Í haust fengum við hugmyndir frá nemendum um hvernig mætti bæta aðstöðu nemenda í frímínútum. Í framhaldinu af þeirri umræðu voru keyptir nýir sófar, töflum komið fyrir á göngum skólans, spilum var fjölgað og nemendur gátu farið í valda leiki í íþróttahúsinu. Við munum halda áfram hlusta eftir óskum nemenda og reyna verða við þeim.

Aðalástæða þess að símarnir eru ekki leyfðir er sú að þeir valda truflun, bæði í kennslustundum og í hinum frjálsa tíma (frímínútum). Einbeiting nemenda þverr og síminn á hug þeirra allan.

Viljum vekja athygli á nokkrum staðreyndum:

  • Mikil notkun getur haft áhrif á andlega sem og líkamlega heilsu barna.

  • Notkun samfélagsmiðla hefur oft skilað sér í miklum kvíða og streitu. Unglingarnir bera sig saman við aðra á samfélagsmiðlum og upplifa sig minna virði ef aðrir virðast betri í einhverju sem hefur áhrif á líf þeirra.

  • Ungmenni verða brothættari, taka síður áhættu, verða síður frjálsleg, fá lægri einkunnir og fara sjaldnar á stefnumót af ótta við að mistakast eða vera gagnrýnd.

  • Einelti á Netinu: Vegna nafnleyndarinnar sem samfélagsmiðlar bjóða upp á aukast líkur og hætta á ofbeldi, þar með talið kynferðisofbeldi, og geta ógnir valdið djúpum tilfinningalegum skaða. Það getur haft langvarandi áhrif sem fylgir einstaklingum til fullorðinsára.

  • Notkun samfélagsmiðla hefur aukist samhliða verri andlegri líðan ungmenna

  • 55% einstaklinga upplifa slæma sjálfsmynd eftir notkun á samfélagsmiðlum

  • Það hefur sýnt sig að börnin hafa ekki öll vald á að fara eftir skólareglum við notkun á símanum. Þar er sérstaklega átt við að fylgja banni við myndatökum í skóla og sendingum (birtingu) á efni sem tekið er upp þar á netmiðla, án samþykkis samnemenda eða starfsfólks skólans.

Það er von okkar að eiga gott samstarf við foreldra og nemendur um þetta bann með velferð nemenda að leiðarljósi.“

Ef þið viljið koma með ábendingar, fyrirspurnir eða ræða mál sem snúa að skólastarfinu þá er velkomið að senda tölvupóst á skólastjóra á netfangið hilmara@gsnb.is, hringja í síma 894 9903 eða líta í heimsókn.