Hans Klaufi í félagsheimilinu Klifi í dag

Vakin er athygli á stórskemmtilegum fjölskyldusöngleik um Hans Klaufa frá Leikhópnum Lottu í félagsheimilinu Klifi í dag kl. 17:30.

Sýningin er í boði Snæfellsbæjar og eru íbúar hvattir til að mæta og taka alla fjölskylduna á þessa skemmtilegu sýningu.

--

Stórskemmtilegur fjölskyldusöngleikur frá Leikhópnum Lottu verður sýndur í félagsheimilinu Klifi mánudaginn 24. febrúar kl. 17:30.

Leikhópurinn Lotta er landsmönnum að góðu kunnur en hópurinn hefur frá árinu 2007 ferðast með sýningar sínar um landið þvert og endilangt. Lotta, sem hefur sérhæft sig í sýningum utandyra, er nú þriðja veturinn í röð komin inn í hlýjuna um allt land. Hópurinn setti Hans Klaufa fyrst upp árið 2010, en nú tíu árum síðar verður rykið dustað af þessu skemmtilega verki og fært nýjum og gömlum áhorfendum í glænýjum búningi.

Verkið hefur verið endurskrifað að stórum hluta og þó að sömu skemmtilegu persónurnar prýði það eins og fyrir tíu árum síðan, hefur nýjum ævintýrum og glænýjum lögum verið bætt við söguna.

Þessi útgáfa af Hans klaufa er í raun alveg ný saga sem ekki er hægt að finna í gömlu ævintýrunum, þó vissulega beri hún þekkt nafn. Verkið er sannkölluð ævintýrablanda sem sækir mikið af efniviði sínum í sígildu ævintýrin okkar. Þannig munum við kynnast Öskubusku, stjúpsystrum hennar og prinsi sem breytt verður í frosk. Við munum stinga okkur á snældu, reyna að sofna með eina litla baun undir 100 ábreiðum og standa í háum turni og láta okkur vaxa hár sem nær alla leið niður á jörðina. Síðast en ekki síst munum við fylgjast með ævintýrum hins klaufalega Hans, Hans Klaufa.

Sjón er sögu ríkari! Hittu Hans klaufa, Aron prins, Öskubusku og alla hina vini þína í Ævintýraskóginum í vetur.

Hans klaufi í leikgerð Leikhópsins Lottu:

Leikstjórar: Anna Bergljót Thorarensen og Þórunn Lárusdóttir

Höfundar laga og texta: Baldur Ragnarsson, Björn Thorarensen, Gunnar Ben og Snæbjörn Ragnarsson

Leikarar: Andrea Ösp Karlsdóttir, Orri Huginn Ágústsson, Sigsteinn Sigurbergsson, Stefán Benedikt Vilhelmsson og Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir.

Viðburður á Facebook