Háskólalestin í Ólafsvík og Grundarfirði um helgina
24.05.2022 |
Fréttir
Ólafsvík og Grundarfjörður eru síðustu áfangastaðir Háskólalestar Háskóla Íslands þetta vorið en þar stoppar lestin dagana 27. og 28. maí. Í boði verða bæði fjölbreytt námskeið fyrir nemendur í efstu bekkjum grunnskóla á staðnum og vísindaveisla í Fjölbrautaskóla Snæfellinga fyrir öll áhugasöm.
Megináherslan í starfi Háskólalestarinnar er á að kynna vísindi á lifandi og fjölbreyttan hátt fyrir ungu fólki, styðja við starf grunnskólanna og efla tengsl við landsmenn á öllum aldri. Í áhöfn lestarinnar eru kennarar og nemendur við Háskóla Íslands sem flestir hverjir eru líka leiðbeinendur í Vísindasmiðju HÍ og Háskóla unga fólksins.
Föstudaginn 27. maí sækja nemendur í 5.-10. bekk í Grunnskóla Snæfellsbæjar í Ólafsvík námskeið um flestallt milli himins og jarðar, en þar verður m.a. fjallað um töfra ljóss og lita, efnafræði, blaða- og fréttamennsku, forritun með skynjurum og föndri, orkuskipti, vindmyllur, nýsköpun, sjúkraþjálfun, loftslagsbreytingar, dulkóðun, draugagang, tröll og þjóðsögur og japanska menningarheima.
Áhöfn Háskólalestarinnar slær svo upp veglegri vísindaveislu fyrir Grundfirðinga og nærsveitunga í Fjölbrautarskóla Snæfellinga laugardaginn 28. maí kl. 12-16. Þar býðst fólki á öllum aldri að kynnast undrum vísindanna með gagnvirkum og lifandi hætti í gegnum fjölbreytt tæki, tól og smiðjur. Öll eru velkominn og enginn aðganseyrir!
Þetta er fjórða og síðasta ferð Háskólestarinnar þetta árið en áður hefur hún stoppað á Hvolsvelli, Dalvík og í Grindavík. Lestin hefur heimsótt hátt á fjórða tug áfangastaða um allt land frá árinu 2011 og fengið einstaklega hlýjar móttökur hvert sem komið er. Það má því með sanni segja að áhöfn lestarinnar haldi full tilhlökkunar á Snæfellsnes með fjölbreytta fræðslu í farteskinu, en allt starf lestarinnar er skipulagt í nánu samstarfi við sveitarfélög og skóla hvers áfangastaðar.
Nánar um Háskólalestina: http://haskolalestin.hi.is/