Heimsókn frá Vestmanna í Færeyjum
Á mánudaginn komu í heimsókn bæjarstjóri og bæjarfulltrúar frá Vestmanna, vinabæ Snæfellsbæjar í Færeyjum. Heimsóknir hafa verið reglulegar undanfarin ár, að undanskildum covid árunum, en þetta er fyrsta vinabæjarheimsóknin síðan fyrir covid.
Gestirnir fóru víða um bæjarfélagið með bæjarfulltrúum Snæfellsbæjar og fengu góða leiðsögn og góðan mat hvar sem þeir komu.
Farið var í heimsókn í Sjóminjasafnið á Hellissandi og Þjóðgarðsmiðstöðina og götulistaverkin skoðuð í gönguferð um Hellissandi.
Jafnframt var farið fyrir Jökul, kíkt á Malarrif og á Hellnar í Fjöruhúsið. Arnarstapi var skoðaður og kíkt á seli við Ytri-Tungu áður en haldið var á Hótel Búðir í kvöldmat.
Í dag, miðvikudag, var skoðaður nýr golfvöllur í Rifi og Svöðufoss áður en haldið var til Ólafsvíkur og rölt um bæinn til að skoða m.a. regnbogagötuna og nýju listaverkin sem voru reist þar í sumar. Að lokum var farið í Höllina í Ólafsvík þar sem virkilega vel var tekið á móti hópnum.
Lokahnykkurinn á heimsókninni var svo hádegisboð í tankinn í Rifi hjá Hildigunni og Þóri.
Þökkum við vinum okkar frá Vestmanna kærlega fyrir heimsóknina, og jafnframt þökkum við öllum sem að heimsókninni komu kærlega fyrir frábæra leiðsögn, gestrisni og þjónustu.