Hjólasöfnun barnaheilla stendur til 1. maí
Hjólasöfnun Barnaheilla – Save the Children á Íslandi var hleypt af stokkunum um hádegisbil þann 19. mars í Sorpu á Sævarhöfða. Söfnunin stendur yfir til 1. maí nk. og hefjast úthlutanir á hjólum í apríl og standa fram í maí.
Hjólin verða gefin börnum og unglingum sem ekki hafa tök á því að kaupa sér reiðhjól. Hægt verður að sækja um hjól í gegnum félagsþjónustu sveitarfélaga. Meðfylgjandi eru umsóknareyðublöð á íslensku og ensku. Hafa skal samband við Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga fyrir aðstoð.
Að þessu sinni var það landskunna sjónvarpskonan Steinunn Ása Þorvaldsdóttir, sem er m.a. þekkt fyrir stjórnun sjónvarpsþáttarins Með okkar augum sem sýndir eru á RÚV, sem afhenti fyrsta hjólið í söfnunina. Hún hvetur þannig aðra til að láta gott af sér leiða og koma hjólum sem ekki eru í notkun til þeirra sem hafa not fyrir þau.Hjólunum verður safnað á endurvinnslustöðvum Sorpu á Dalvegi í Kópavogi, Breiðhellu í Hafnarfirði, Sævarhöfða, Ánanaustum og Jafnarseli í Reykjavík og Blíðubakka í Mosfellsbæ. Sjálfboðaliðar munu gera hjólin upp undir styrkri leiðsögn sérfræðinga í reiðhjólaviðgerðum áður en þau verða afhent. Verkefnið hefur mjög breiða samfélagslega skírskotun þar sem það eflir þátttöku barna og ungmenna í samfélaginu.
Þetta er í tíunda sinn sem hjólasöfnunin fer fram en hún er unnin í samstarfi við Æskuna barnahreyfingu IOGT, Sorpu og ýmsa aðra velunnara.Rúmlega 2500 börn hafa notið góðs af hjólasöfnun Barnaheilla frá því henni var fyrst hrundið af stað árið 2012.
Hægt er að fylgjast með verkefninu á Facebook síðu söfnunarinnar og einnig er hægt að skrá sig þar til þátttöku í sjálfboðaliðastarf fyrir hjólaviðgerðir. Umsóknareyðublöð (berist til Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga)