Íbúar á Snæfellsnesi hamingjusamastir samkvæmt stórri könnun
Íbúar á Snæfellsnesi reyndust hamingjusamastir og marktækt hamingjusamari en á öðrum svæðum landsins samkvæmt nýrri könnun á vegum Byggðastofnunar og landshlutasamtakanna, sem mældi búsetuskilyrði, hamingju og almennt viðhorf til búsetusveitarfélags.
Íbúar á Snæfellsnesi voru jákvæðastir í afstöðu til síns sveitarfélags og gáfu ásýnd hæstu einkunn allra og voru einnig ánægðir með loftgæði, sorpmál, umferðaröryggi og umhverfismál.
Skoðanakönnunin var gerð í september og október 2020 og var send út á þremur tungumálum, íslensku, ensku og pólsku. Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri annaðist gerð úrtaks. Vífill Karlsson, hagfræðingur hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, hafði yfirumsjón með skipulagi og framkvæmd.
Niðurstöðurnar byggja á svörum frá yfir tíu þúsund þátttakendum og er þetta í fyrsta sinn sem svo víðtæk könnun á búsetuskilyrðum, hamingju og viðhorfi til sveitarfélags nær til allra svæða landsins.