Jafningahittingur krabbameinsgreindra í Snæfellsbæ

Krabbameinsfélag Snæfellsness er starfandi á öllu Snæfellsnesinu og hefur gert það síðan árið 2015. Stjórn félagsins hefur mikinn áhuga á því að gera félagið sýnilegra og vinna að því að það komi að góðu gagni fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra. Krabbameinsgreindir geta sótt um styrk hjá: krabbsnae@gmail.com Nú er í bígerð á vegum Krabbameinsfélagsins að koma á fót hér í Snæfellsbæ fundi með þeim sem fengið hafa krabbamein og aðstandendum þeirra. Það er stórt mál að fá krabbamein og það er mjög margt sem kemur upp hjá þeim sem það fær. Meginmarkmið með svona fundi/hitting er að spjalla saman og læra um sjúkdóminnn hvort af öðru. Líka að stuðla að bættri andlegri og líkamlegri líðan. Það er mikils virði að geta rætt þessi mál við aðra þá sem lent hafa í svipaðri reynslu. 

Margir hafa lýst því hversu mjög gefandi það er að hitta annað fólk í svipaðri stöðu og skiptast á skoðunum um þetta mál. Búið er koma svona fundum á í Grundarfirði og í Stykkishólmi þar sem fólk nýtur þess að hittast.

Hér í Snæfellsbæ er hópur fólks sem hefur áhuga og vilja á því að stofnaður verði álíka félagsskapur. Auk þess að vera stuðningshópur jafningja væri hægt að fá öðru hvoru inn fyrirlesara og aðra fræðslu. Þá eru félagar úr Von líka tilbúnir að koma hingað og liðsinna okkur. Þar að auki verður leitað til samtakanna Ljósið um góð ráð og handleiðslu. Fyrsti fundurinn um þessi mál verður haldinn í Átthagastofunni Kirkjutúni 2 í Ólafsvík miðvikudaginn 8. febrúar kl. 17.00. Fundirnir eru opnir öllum þeim sem greinst hafa með krabbamein sem og aðstandendum þeirra og hvetjum við þá til að mæta. Það er von okkar að þessi félagsskapur geti orðið einhverjum athvarf og stuðningur. 

Fyrir hönd undirbúningshópsins:

Pétur Steinar Jóhannsson

Eygló Kristjánsdóttir         

Guðrún Þórðardóttir