Jól og áramót á Jaðri - heimsóknarreglur
16.12.2020 |
Fréttir
Kæru ættingjar og vinir!
Senn líður að jólahátíð sem verður óvenjuleg þetta árið. Við höfum í samráði við Embætti landlæknis sett upp nýjar heimsóknarreglur sem taka gildi frá og með deginum í dag. Ættingjar fá frekari upplýsingar sendar til sín í dag.
Heimsóknir á aðventu og um hátíðarnar:
- Heimilið er opið alla daga fyrir heimsóknir og 1-2 gestir geta komið í heimsókn hvern dag.
- Börn yngri en 18 ára eru velkomin ef þau teljast annar af þessum tveimur gestum.
- Gestir mega ekki dvelja í almennum rýmum, heldur eingöngu inni hjá íbúa.
- Ekki er opið fyrir heimsóknir á matmálstímum, (á einnig við á aðfangadags- og jólakvöldi).
- Alfarið er mælst gegn því að íbúar fari í boð til ættingja á þessum tíma. Eftir slíkt boð þarf íbúi að fara í sóttkví með ættingja á hans heimili og sýnatöku að sóttkví lokinni áður en heimild er veitt til að koma aftur inn á hjúkrunarheimilið.
- Gestur má ekki koma inn á hjúkrunarheimilið nema hafa sinnt eigin sóttvörnum í hvívetna.
- Fólk sem kemur erlendis frá verður að hafa lokið sóttkví og neikvæð niðurstaða seinni sýnatöku þarf að liggja fyrir. Gott er að láta 3 daga líða til viðbótar áður en komið er inn á hjúkrunarheimili.
- Stjórnandi heimilisins getur veitt undanþágu frá þessum reglum við mikil veikindi eða sambærileg atvik.
Við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og þökkum tillitssemi og samvinnu í garð heimilisins og starfsmanna.
Bestu kveðjur, starfsfólk Jaðars