Jól og áramót í leikskólanum

Bæjarráð Snæfellsbæjar samþykkti á síðasta fundi sínum að fela leikskólastjórnendum að kanna hug foreldra og forráðamanna barna í leikskólanum varðandi vistun í leikskóla Snæfellsbæjar milli jóla og nýárs.

Kjósi foreldrar að halda börnum heima milli jóla og nýárs, dagana 28. - 30. desember, reiknast afsláttur af janúargjöldum sem nemur þeim dögum sem ekki verða nýttir.

Foreldrar eru hvattir til að láta leikskólastjórnendur vita fyrir 10. desember hvort, og þá hvaða daga, þeir hyggist senda börn í leikskólann með því að senda tölvupóst á leikskolar@snb.is.

Hér má lesa hluta af bókun bæjarráðs:

Bæjarráð tekur heilshugar undir það með leikskólastjóra hversu mikilvægt það er að skapa fjölskylduvænna samfélag með tækifærum til jákvæðrar samveru foreldra og barna. Bæjarráð samþykkti því samhljóða að fela leikskólastjórnendum að gera könnun meðal foreldra þar sem þeir þurfa að láta vita fyrir 10. desember hvort barn þeirra mæti í leikskólann eða ekki á þessum tíma milli jóla og nýárs. Bæjarráð samþykkti jafnframt að veita afslátt af leikskólagjöldum sem svarar þeim dögum sem ekki eru nýttir, 1-3 eftir atvikum, og hvetja þannig til aukinnar samveru milli foreldra og barna.

Með þessu telur bæjarráð að leikskólastjórnendur geti hagað skipulagi leikskólans á þann veg milli jóla og nýárs að hægt sé að veita lágmarksþjónustu, börn og starfsfólk fljótandi milli deilda, og þannig gefið starfsfólki möguleika á aukafríi á þessum tíma.“