Jólaljós tendruð í morgunsárið

Jólaljósin voru tendruð á jólatrjám í Snæfellsbæ í morgun. Vegna aðstæðna í samfélaginu var fámennt en góðmennt við tilefnið á Hellissandi og Ólafsvík, en leik- og grunnskólabörn tóku þátt í athöfninni ásamt kennurum. Krakkarnir komu á mismunandi tímum og fylgdu sínum hópum allan tímann til að gæta þess að hóparnir blönduðust ekki.

Fyrst voru ljósin tendruð á Hellissandi með nemendum í 1. -4. bekk í grunnskóla Snæfellsbæjar og að því loknu börnum á leikskólanum Kríubóli. Eftir söng og dans með kennurum mætti Hurðaskellir einn síns liðs með grímu, hanska og söng nýja jólalagið „Skreytum hús með grímu og spritti“. Að sögn Hurðaskellis hafði Gluggagægir verið með honum, en hann gleymdi víst grímunni og fraus fastur við glugga á húsi einu á Arnarstapa þegar hann gægðist inn í hlýjuna.

Í Ólafsvík tendruðu börn í leikskólanum Krílakoti fyrst ljósin á jólatrénu á Sáinu áður en nemendur í 5. - 7. bekk við grunnskóla Snæfellsbæjar gerðu slíkt hið sama. Í Ólafsvík bar það til tíðinda að Gluggagægir hafði greinilega losnað úr klípunni á Arnarstapa og komist alla leið til Ólafsvíkur, einungis til að fylgja bróður sínum, Hurðaskelli, á heilsugæsluna. Sá hafði víst skellt hurð á fingur sér.

Jólasveinarnir tóku lagið með börnunum og gáfu þeim í kjölfarið mandarínu og nammipoka.