Jólaþorp Snæfellsbæjar haldið í Klifi 28. nóvember

Lifandi tónlist og ilmur af ristuðum möndlum í loftinu, jólaglögg í glasinu og vinir og kunningjar á hverju strái. Jólaþorp Snæfellsbæjar verður haldið á ný, nú í stærra og hentugra húsnæði. Í fyrra var jólaþorpið haldið í fyrsta skipti og þá í Átthagastofu Snæfellsbæjar þar sem færri komust að en vildu. Ákveðið var að færa viðburðinn þetta árið í félagsheimilið Klif.

Jólaþorpið hefst kl. 17:00 og stendur til kl. 22:00. Ýmislegt verður í boði fyrir gesti og gangandi auk þess sem fyrirtæki og einkaaðilar verða með vörur til sýnis og sölu, en rúmlega 20 söluaðilar verða á svæðinu. Þá má einnig kaupa miða í forsölu á jólatónleika GÓSS sem verða í Ólafsvíkurkirkju laugardaginn 30. nóvember.

Menningarnefnd Snæfellsbæjar hefur veg og vanda af jólaþorpinu og býður íbúa og aðra nærsveitunga hjartanlega velkomna í félagsheimilið Klif á fimmtudaginn.

Jólaþorpið á Facebook - viðburður 28. nóvember