Kristfríður Rós nýr íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Snæfellsbæjar

Kristfríður Rós Stefánsdóttir hefur verið ráðin í starf íþrótta- og æskulýðsfulltrúa Snæfellsbæjar og tekur við starfinu af Laufeyju Helgu Árnadóttur sem lætur af störfum um miðjan maí.

Í febrúar var auglýst eftir umsóknum um starf íþrótta- og æskulýðsfulltrúa Snæfellsbæjar og komu fimm afar góðar umsóknir um starfið. Að loknu umsóknar- og viðtalsferli var ráðninga- og ráðgjafafyrirtækið Hagvangur fengið til að gefa hlutlaust og faglegt mat á umsækjendum. Var það niðurstaða Hagvangs að Kristfríður Rós fengi flest stig úr þeirra mati  og mælti því með að hún yrði ráðin til starfsins. Ráðningarnefnd Snæfellsbæjar, sem skipuð var þremur fulltrúum úr bæjarstjórn; forseta bæjarstjórnar, formanni bæjarráðs og oddvita minnihlutans, var fullkomlega sammála því að mæla með því til bæjarstjórnar að farið verði í einu og öllu eftir mati Hagvangs. Ráðningin var tekin fyrir á 356. fundi bæjarstjórnar Snæfellsbæjar þann 31. mars, og var þar samþykkt með 5 atkvæðum að ganga til samninga við Kristfríði Rós um starfið. Einn fulltrúi meirihlutans vék af fundi undir þessum lið vegna tengsla við umsækjendur og einn fulltrúi minnihlutans sat hjá við atkvæðagreiðslu af sömu ástæðu.

Kristfríður Rós er fædd og uppalin í Snæfellsbæ og lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Hún er með B.Sc í íþrótta- og heilsufræði frá Háskóla Íslands og lýkur meistaragráðu í sama fagi frá Háskóla Íslands á þessu ári. Þá má einnig nefna að hún hefur lokið einkaþjálfara- og styrktarþjálfararéttindum frá ÍAK. 

Á undanförnum árum hefur hún einnig viðað að sér fjölbreyttri reynslu af íþrótta- og æskulýðsstarfi hér í sveitarfélaginu, m.a. sem framkvæmdastjóri Ungmennafélagsins Víkings/Reynis og Snæfellsnessamstarfsins auk þess sem hún er annar eiganda og þjálfari hjá crossfit-stöðinni CF SNB á Rifi.

Við óskum Kristfríði Rós til hamingju með nýja stöðu og bjóðum hana hjartanlega velkomna til starfa hjá Snæfellsbæ.