Kvikmyndahátíðin Northern Wave fer fram um helgina

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Northern Wave fer fram í ellefta sinn helgina 26. - 28. október næstkomandi í Frystiklefanum.

Á hátíðinni í ár verða sýndar 60 alþjóðlegar stuttmyndir, hvort tveggja rjómi nýrra íslenskra stuttmynda og það besta sem gerist erlendis í stuttmyndagerð. Á dagskrá er fjöldi verðlaunamynda og mynda sem hlotið hafa mikið lof á virtum hátíðum á borð við Cannes, Sundance og Tribeca Film Festival.

Á ári hverju tilnefnir hátíðin, í samstarfi við Albumm.is, íslensk tónlistarmyndbönd til verðlauna. Í ár var mikil gróska í tónlistarmyndbandagerð og eru 20 tónlistarmyndbönd tilnefnd, þar af 11 sem leikstýrð voru af konum. Tónlistarmönnum myndbandanna hefur verið boðið að spila fyrir gesti hátíðarinnar og nú þegar hafa KiraKira, MIMRA og Hafdís Bjarnadóttir tilkynnt að þær ætli að fylga sínum tónlistarmyndböndum eftir með tónleikum.

Heiðursgestur hátíðarinnar í ár er stundum kölluð “the first lady of Sci fi”, en það er engin önnur en Gale Anne Hurd, framleiðandi í Hollywood​ og eigandi Valhalla Entertainment. Gale var m.a. meðhöfundur og framleiðandi hinnar goðsagnakenndu Terminator, auk þess sem hún hefur komið að framleiðslu á kvikmyndunum Aliens, Hulk og Armageddon og sjónvarpsþáttunum The Walking Dead. Leikkonan Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, sem situr í dómnefnd hátíðarinnar ásamt Ottó Geir Borg handritshöfundi og Nanna Frank Rasmussen frá Jyllands Posten í Danmörku, mun stýra spjalli við Gale um feril hennar.

Hátíðin skipuleggur að auki, í samstarfi við Wift og bandaríska sendiráðið, sérstaka sýningu á heimildarmyndinni Mankiller frá 2017 sem Gale framleiddi og fjallar um baráttu fyrsta Cherokee-kvenhöfðingjans í Bandaríkjunum, Wilma Mankiller, fyrir auknum réttindum indjána. Myndin verður sýnd samtímis í Frystiklefanum á Rifi og í Bíó Paradís, sunnudaginn 28. október klukkan 20.00.

Umfjöllun Mannlífs um hátíðina í ár Meðfylgjandi mynd var fengin af Facebook-síðu Frystiklefans. Á henni má sjá Eddu Björgvins ræða við gesti hátíðarinnar í fyrra.