Kvikmyndahátíðin Northern Wave fer fram um helgina

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Northern Wave fer fram í tólfta sinn helgina 25. – 27. október í Frystiklefanum. Þetta er í fjórða skipti sem hátíðin er haldin hér í Snæfellsbæ eftir að hafa slitið barnskónum í Grundarfirði og gott dæmi um farsælt menningarsamstarf milli bæjarfélaganna á Snæfellsnesi.

Á hátíðinni í ár verða sýndar ríflega 70 alþjóðlegar stuttmyndir, hvort tveggja rjómi nýrra íslenskra stuttmynda og það besta sem gerist erlendis í stuttmyndagerð. Á dagskrá er fjöldi verðlaunamynda og mynda sem hlotið hafa mikið lof á virtum erlendum kvikmyndahátíðum.

Heiðursgestur hátíðarinnar í ár er kvikmyndatökumaðurinn Bergsteinn Björgúlfsson. Hann tók meðal annars upp myndirnar Hross í oss og Kona fer í stríð og sjónvarpsþættina Ófærð. Hann verður með meistaraspjall á laugardaginn sem stýrt verður af Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur leikkonu þar sem ljósi verður varpað á störf fólksins sem er á bak við tjöldin.

Aðrir viðburðir verða á sínum stað, t.d. fiskiréttakeppni, vinnustofur, fyrirlestrar, tónleikar og fleira. 

-

Frítt er á alla viðburði hátíðarinnar og fer hátíðin að öllu leyti fram í Frystiklefanum. Opnunarhóf hátíðarinnar verður í kvöld kl. 20:00.

Hér má sjá dagskrá hátíðarinnar. Mynd: Valdís Óskarsdóttir í meistaraspjalli. Fengin af vefsíðu The Northern Wave Film Festival