Kvikmyndahátíðin Northern Wave Film Festival fer fram um helgina
Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Northern Wave fer fram í fjórtánda sinn helgina 11. - 13. nóvember í Frystiklefanum á Rifi. Þetta er í sjötta skipti sem hátíðin er haldin hér í Snæfellsbæ eftir að hafa slitið barnskónum í Grundarfirði og gott dæmi um farsælt menningarsamstarf milli bæjarfélaganna á Snæfellsnesi.
Á hátíðinni verða sýndar stuttmyndir hvaðanæva að úr heiminum auk íslenskra tónlistarmyndbanda og má nú sjá dagskrána í heild sinni á vef hátíðarinnar. Sýningarnar fara fram í Frystiklefanum annars vegar og í sundlauginni í Ólafsvík hins vegar.Á hátíðinni í ár verður fjöldi alþjóðlegra stuttmynda, hvort tveggja rjómi nýrra íslenskra stuttmynda og það besta sem gerist erlendis í stuttmyndagerð. Á dagskrá er fjöldi verðlaunamynda og mynda sem hlotið hafa mikið lof á virtum erlendum kvikmyndahátíðum. Dagskrá laugardags lýkur með stórtónleikum Emmsjé Gauta í Frystiklefanum.
Opnunarhóf hátíðarinnar verður frá kl. 20:00 - 22:00 föstudaginn 11. nóvember.
Frítt er á viðburði hátíðarinnar í Frystiklefanum að undanskildum tónleikum Emmsjé Gauta og þá þarf einnig að greiða hefðbundið gjald í sundlaugina.
Góða skemmtun og gleðilega menningu!