Ljósmyndasamkeppni Snæfellsbæjar 2020

Í tilefni sumars og hækkandi sólar efnir Snæfellsbær til ljósmyndasamkeppni í fyrsta sinn.

Menningarnefnd Snæfellsbæjar heldur utan um verkefnið ásamt markaðs- og upplýsingafulltrúa og hefur verið ákveðið að þemað í fyrstu samkeppninni verði einfalt; Sumar í Snæfellsbæ.

Þemað er vítt skilgreint og tækifæri fyrir áhugafólk um ljósmyndun til að láta ljós sitt skína. Lifandi mannlíf eða blómstrandi náttúra, Snæfellsjökull í allri sinni dýrð, listrænar myndatökur, landslagsmyndir eða sólsetur við Breiðafjörðinn. Það er allt opið og bundið skilgreiningu ljósmyndara á því hvað sé sumarlegt.

Mögulegt er að senda inn myndir frá 1. maí til og með 31. júlí nk. Vegleg verðlaun verða veitt fyrir þrjár bestu myndirnar. Ath. það þarf ekki að taka nýjar myndir heldur má senda myndir úr safni einstaklinga.

Að keppni lokinni verða allar myndir til sýnis á vefsíðu Snæfellsbæjar og með þátttöku í ljósmyndasamkeppninni veita þátttakendur leyfi til þess að myndirnar verði notaðar sem kynningarefni fyrir Snæfellsbæ.

Snæfellsbær hvetur íbúa og aðra sem leið eiga um sveitarfélagið til að taka þátt, deila myndum sem víðast á samfélagsmiðlum og senda á neðangreint netfang til Snæfellsbæjar.

Það geta allir tekið þátt!

Reglur:
  • Þema keppninnar er Sumar í Snæfellsbæ.
  • Mynd verður að vera tekin innan sveitarfélagsmarka Snæfellsbæjar.
  • Ekki er heimilt að senda inn myndir sem bundar eru höfundarrétti annars en þátttakanda.
  • Hver þátttakandi má senda inn að hámarki fimm myndir.
  • Senda myndir á ljosmyndasamkeppni@snb.is
  • Skilafrestur er til miðnættis 31. júlí 2020.