Malarrif, Svalþúfa og Vatnshellir í Snæfellsjökulsþjóðgarði

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkti lýsingu og matslýsingu á fundi sínum 5. desember 2024 fyrir gerð nýs deiliskipulags fyrir Malarrif, Svalþúfu og Vatnshelli í Snæfellsjökulsþjóðgarði vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á svæðinu skv. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Skipulagssvæðið er innan Snæfellsjökulsþjóðgarðs og þekur um 276 ha. Í fyrirhuguðu deiliskipulagi á Malarrifi er gert ráð fyrir útsýnispöllum, göngu- og upplifunarstígum, salernishúsi og að festa í sessi gestastofu og aðkomusvæði. Á þessu svæði er einnig grjótnáma og efnisgeymslusvæði sem gert er ráð fyrir að ganga frá auk vatnsbóls (brunnsvæðis). Við Svalþúfu er gert ráð fyrir að stækka bílastæðin og koma fyrir útsýnispöllum ásamt göngustígum sem mynda tengingar að Lóndröngum og Malarrifi. Með fyrirhuguðu deiliskipulagi er landnotkun við Vatnshelli staðfest og gert ráð fyrir mögulegum byggingareit vegna salerna.

Hægt er að skoða lýsinguna og matslýsinguna á skipulagsgátt Skipulagsstofnunar undir málsnúmeri: 1558/2024.

Umsagnaraðilum og þeim sem eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir og/eða umsagnir vegna lýsingar fyrirhugaðs deiliskipulags frá 9. janúar 2025 til og með 30. janúar 2025. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast inn á Skipulagsgátt á málsnúmer: 1558/2024.

Gunnþóra Guðmundsdóttir, arkitekt faí

Skipulagsfulltrúi Snæfellsbæjar

-

Myndatexti: Áætluð afmörkun deiliskipulagssvæðisins.