Mávur frá Mávahlíð er lambafaðir ársins 2018

Herdís Leifsdóttir og Emil Freyr Emilsson glöð í bragði með verðlaunin. Ljósmynd: smh / Bændablaðið.

Á opnum fagráðsfundi í sauðfjárrækt sem haldinn var í Bændahöllinni fyrr í þessum mánuði var Mávur frá Mávahlíð valinn Lambafaðir ársins 2018, hvorki meira né minna, og veittu Herdís Leifsdóttir og Emil Freyr Emilsson verðlaunagripnum viðtöku.

Er það faghópur sauðfjárræktar á vegum Ráðgjafamiðstöðvar Landbúnaðarins sem dæmir hrútana eftir árangri þeirra og verðlaunar þann sæðingastöðvahrút sem skarað hefur fram úr, að þessu sinni Máv 15-990 frá Mávahlíð.

Sannarlega glæsilegur árangur hjá þeim hjónum og Mávur vel að titlinum kominn. Við leyfum umsögn faghóps Ráðgjafamiðstöðvar Landbúnaðarins að fylgja hér að neðan.

„Besti lambafaðir sæðingastöðvanna veturinn 2017 til 2018 er Mávur 15-990 frá Mávahlíð í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi. Val hans byggir á niðurstöðum úr lambaskoðunum og kjötmati haustið 2018.

Mávur er sonur Blika 12-001 frá Mávahlíð sem var sonur Gosa 09-850 frá Ytri-Skógum. Móðir hans Dröfn 12-008 var tvílembd gemlingur síðan þrisvar verið þrílembd annars tvílembd og er með 6,9 í afurðaeinkunn. Tíu af fimmtán lömbum hennar hafa verið valin til lífs. Dröfn er dóttir Hróa 07-836 frá Geirmundarstöðum. Mæður foreldra Mávs rekja uppruna sinn að miklu leyti í þá öflugu hjörð sem verið hefur í Mávahlíð í áratugi. Þar er þó einnig skammt í stöðvahrúta s.s. Abel 00-890 frá Ósabakka, Túla 98-858 frá Leirhöfn og Þrótt 04-991 frá Staðarbakka.

Mávur var fenginn til notkunnar á sæðingastöðvunum haustið 2017 að aflokinni afkvæmarannsókn fyrir úrvalshrúta á Snæfellsnesi sem fram fór að Gaul í Staðarsveit. Mávur sýndi þar mjög skýra yfirburði sem lambafaðir. Mávur hefur verið tvo vetur í notkun á stöðvunum og bæði árin verið meðal þeirra hrúta sem bændur hafa sótt mikið í að nota. Afkvæmi Mávs er ákaflega jafnvaxin og sameina afar vel góða gerð, hóflega fitu og ágætan vænleika. Allmörg þeirra hafa erft hreinhvíta og kostaríka ull föður síns og hann því einnig öflugur kynbótahrútur hvað ullargæði varðar. Mávur stendur nú í 116 stigum í kynbótamati fyrir gerð og 118 stigum fyrir fitu. Í uppgjöri fjárræktarfélaganna 2018 fær hann 119 í fallþungaeinkunn fyrir afkvæmi sín. Mávur er frábær lambafaðir gagnvart öllum helstu eiginleikum sem horft er til við líflambaval og ber með sóma nafnbótina „besti lambafaðirinn“ framleiðsluárið 2018.“