Nokkur orð inn í helgina

Enn er að greinast fjöldi smita á Íslandi, flest á höfuðborgarsvæðinu, en sem betur fer ennþá engin hér í Snæfellsbæ.  Til þess að svo megi vera áfram, þá langar okkur til að biðla til fólks að fara varlega inn í helgina.  Það sakar aldrei að huga meira að smitvörnum en minna.  Þvo sér oft um hendur, spritta og reyna að halda tveggja metra fjarlægð eins og kostur er.  Ef ekki er hægt að halda þeim fjarlægðartakmörkunum, þá hvetjum við fólk til að nota grímur, t.d. þegar það fer inn í verslanir.  Eins höldum við áfram að hvetja fólk til að halda sig heima við og vera ekki á ferðinni á milli landshluta að nauðsynjalausu.

Við setjum hér tilmæli sóttvarnarlæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og hvetjum fólk hér í Snæfellsbæ til að skoða þau vel og fara eftir þeim eins og kostur er, þó tilmælin séu helst ætluð fólki á höfuðborgarsvæðinu.  Við erum öll almannavarnir og saman tekst okkur að vinna bug á þessari veiru.

Sóttvarnalæknir og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra ítreka tilmæli sín vegna aukins fjölda smita einkum á höfuðborgarsvæðinu, vegna Covid-19 síðustu daga og aukið hafa líkur á veldisvexti í faraldrinum. Búast má við að tölur um fjölda smita verði háar næstu daga. Tilmælin eru; 
  • Hvetjum alla á höfuðborgarsvæðinu til að vera eins mikið heimavið og kostur er.
  • Ekki vera á ferðinni til eða frá höfuðborgarsvæðinu nema nauðsyn sé til.
  • Verjum viðkvæma hópa og takmörkum heimsóknir til einstaklinga í áhættuhópum eins og hægt er.
  • Takmörkun fjölda í búðum – einn fari að versla frá heimili ef kostur er
  • Hvatt er til þess að þeir sem standi fyrir viðburðum á höfuðborgarsvæðinu fresti þeim
  • Klúbbar, kórar, hlaupahópar, hjólahópar og aðrir hópar sem koma saman geri hlé á starfsemi sinni.
  • Allir staðir á höfuðborgarsvæðinu þar sem almenningur á erindi herði allar sínar sóttvarnaraðgerðir, takmarki eins og hægt er fjölda, tryggi að allir geti sótthreinsað hendur við innganga, sótthreinsi snertifleti og gæti vel að hægt sé að virða fjarlægðarmörk.
  • Íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu geri hlé á æfingum og keppni í öllum íþróttum.
  • Íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu fresti keppnisferðum út á land.
  • Allir sem finni fyrir hinum minnstu einkennum haldi sig heima, fari í sýnatöku og líti á að þeir séu í einangrun þar til neikvæð niðurstaða úr sýnatöku liggi fyrir.