Northern Wave Film Festival fer fram um helgina

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Northern Wave fer fram í þrettánda sinn helgina 22. – 24. október í Frystiklefanum. Þetta er í fimmta skipti sem hátíðin er haldin hér í Snæfellsbæ eftir að hafa slitið barnskónum í Grundarfirði og gott dæmi um farsælt menningarsamstarf milli bæjarfélaganna á Snæfellsnesi.

Heiðursgestur hátíðarinnar í ár er einn ástsælasti leikari þjóðarinnar, Ólafur Darri. Áhugasamir geta hlýtt á meistaraspjall við hann kl. 16:00 á laugardaginn.

Á hátíðinni í ár verður fjöldi alþjóðlegra stuttmynda, hvort tveggja rjómi nýrra íslenskra stuttmynda og það besta sem gerist erlendis í stuttmyndagerð. Á dagskrá er fjöldi verðlaunamynda og mynda sem hlotið hafa mikið lof á virtum erlendum kvikmyndahátíðum.

Aðrir viðburðir verða á sínum stað, t.d. fiskiréttakeppni, vinnustofur, fyrirlestrar, námskeið fyrir krakka, tónleikar og fleira.  Á föstudaginn verða tónleikar með Reykjavíkurdætrum og á laugardaginn verða tónleikar með Vök. Báðir tónleikarnir hefjast kl. 21:00.

Frítt inn á alla viðburði nema í Sundlaug Ólafsvíkur þar sem greitt er fyrir sundferðina. Aðrir viðburðir fara fram í Frystiklefanum. Opnunarhóf hátíðarinnar verður í kvöld kl. 20:00.

Dagskrá hátíðarinnar