Ný heimasíða Snæfellsbæjar opnar í dag
Í dag fer í loftið ný heimasíða hjá Snæfellsbæ.
Talsverðar breytingar eru á útliti síðunnar og eru þær allar gerðar með þarfir notenda að í huga. Lagt var upp með að einfalda aðgengi að upplýsingum og gera leiðakerfi síðunnar notendavænna.
Jafnframt hefur fjölmörgum nýjunum verið bætt við síðuna og má þar t.d. nefna að nú er hægt að skoða lausar lóðir á kortavefnum, fylgjast með nýjustu aflatölum á höfnum Snæfellsbæjar, kalla fram færð á vegum í sveitarfélaginu og skoða veðurspá næstu þriggja daga á svæðinu.
Auk þess er vefsíðan búin góðri leitarvél og þá þjónar hún betur þörfum þeirra sem hafa ekki íslensku að móðurmáli, en boðið er upp á sjálfvirka þýðingu Google Translate yfir á ensku og pólsku.
Þess má geta að vefsíður eru stöðugt í þróun og enn standa nokkur verk óunnin á nýju vefsíðu okkar. Það er óumflýjanlegt að einhverjar villur komi upp við stórar uppfærslur sem þessar og því biðjum við íbúa og aðra lesendur að sýna því skilning fyrst um sinn.
Allar ábendingar um efnistök síðunnar eru vel þegnar og er hægt að koma til skila í gegnum valmöguleika á forsíðu eða með því að senda tölvupóst Heimir Berg, markaðs- og upplýsingafulltrúa Snæfellsbæjar, sem hefur unnið að uppsetningu á vefsíðunni.