Nýjar gjaldskrár fyrir árið 2020
Fimmtudaginn 5. desember samþykkti bæjarstjórn fjárhagsáætlun Snæfellsbæjar fyrir árið 2020, og um leið nýjar gjaldskrár, en þær eru nú komnar inn á vefsíðu Snæfellsbæjar.
Undanfarin fjögur ár hafa gjaldskrár grunnskóla- og leikskóla staðið í stað, en á árinu 2020 verða smávægilega hækkanir á þeim. Grunngjald leikskóla hækkar um 2,8%, fer úr kr. 3.700.- í 3.800.-. Fæðiskostnaður hækkar ekkert. Fyrir 8 klt. vistun með fullu fæði þýðir þetta að foreldrar greiða kr. 40.400.- í stað 39.600.- á árinu 2019.
Gjöld grunnskóla hækka um 3,5% milli ára.
Gjaldskrá fasteignagjalda tekur töluverðum breytingum. Álagningarprósenta B- og C-húsnæðis stendur í stað, og jafnframt álagningarprósenta fasteignaskatts og lóðarleigu A-húsnæðis. Álagningarprósenta vatnsgjalds húsnæðis í A-flokki lækkar um 9% og álagningarprósenta fráveitugjalda A-húsnæðis lækkar sömuleiðis um 6,25%. Þetta er gert til að koma til móts við íbúðaeigendur í sveitarfélaginu þar sem undanfarið hefur fasteignamat hækkað töluvert og þar með hækka fasteignagjöld. Með þessum aðgerðum ættu fasteignagjöld íbúðaeigenda ekki að hækka milli ára, þrátt fyrir hækkun á fasteignamati.
Gjaldskrá tónlistarskóla hækkar um 2,5% milli ára, en gjaldskrá íþróttahúss og sundlaugar stendur í stað, bæði í Ólafsvík og í Lýsuhólslaug.
Gjaldskrá fyrir hundahald tekur töluverðum breytingum á árinu 2020. Almennt leyfisgjald lækkar og verður kr. 15.000.-, en fyrsta leyfisveiting verður kr. 20.000.-. Jafnframt verður sú breyting gerð að tekið verður tillit til þeirra hunda sem hafa farið á hlýðninámskeið og jafnframt til þeirra eiganda sem farið hafa með hunda sína í hreinsun annars staðar og tryggja hunda sína sjálfir. Gegn framvísun skírteina er heimilt að veita samtals allt að 30% afslátt af leyfisgjaldi.
Í byrjun árs verður farið í það verkefni að skrá ketti í sveitarfélaginu.
Aðrar gjaldskrár taka litlum sem engum breytingum.
Viðhengi:
Gjaldskrár