Nýtt flokkunarkerfi sorps tekið upp í Snæfellsbæ
Í þessari viku hefst innleiðing í Snæfellsbæ á nýju flokkunarkerfi til að uppfylla kröfur nýrra laga um flokkun úrgangs.
Snæfellsbær óskar eftir góðu samstarfi við íbúa við innleiðingu á nýja flokkunarkerfinu og hægt er að hafa samband við starfsfólk og óska eftir frekari upplýsingum. Hér að neðan eru einnig upplýsingar um fyrstu skref innleiðingarinnar.
Nýju lögin kveða á um að skylt verði að flokka úrgang í a.m.k. sjö flokka og að við heimili verði safnað plasti, pappír og pappa, lífúrgangi og blönduðum úrgangi.
Í Snæfellsbæ verður kerfi með fjóra flokka í þrem tunnum. Íbúar munu því eingöngu fá eina nýja viðbótartunnu að heimili sínu í stað tveggja. Byrjað verður að dreifa tunnum á Hellissandi og Rifi, því næst í Ólafsvík og að lokum í dreifbýlinu.
Til upplýsinga fyrir íbúa verður ferlið tekið í eftirfarandi skrefum:
- Nýrri tunnu verður dreift að heimilum. Nýja tunnan verður með lausu hólfi, betur þekkt sem tunna í tunnu, þ.e. fjórða hólfið er í þriðju tunnunni. Í þetta hólf verður safnað matarleifum.
- Núverandi tunnur verða endurmerktar. Græn tunna verður fyrir pappa og grá tunna verður fyrir plast.
- Öll heimili fá plastkörfu og eitt búnt af bréfpokum í upphafi fyrir matarleifar endurgjaldslaust. Pokarnir eru settir í plastkörfu sem tryggir að það lofti um pokann sem kemur í veg fyrir mögulegan leka. Ath. ekki er ráðlegt að nota sama poka lengur en í tvo til þrjá daga.
Í Snæfellsbæ verða eftirfarandi söluaðilar með bréfpoka til sölu: N1 á Hellissandi, Smiðjan Fönix í Rifi, Þín Verslun Kassinn í Ólafsvík, Sjoppan Ólafsvík og Voot í Ólafsvík. Auk þess eru þessir pokar til sölu í mörgum verslunum um land allt í dag.
Grenndarstöðvar
Jafnframt verða opnaðar grenndarstöðvar fyrir málm og gler í þéttbýli Snæfellsbæjar. Grenndarstöðvar í þéttbýliskjörnum verða við Mettubúð í Ólafsvík, N1 á Hellissandi og við spennustöðina á Rifi.
Á Arnarstapa og Hellnum verða einnig grenndarstöðvar og verða þær á sömu stöðum og þær eru í dag. Flokkað verður þar í fjóra flokka; almennt, pappi, plast og lífrænt.
Losunaráætlun
Sorp verður losað í Snæfellsbæ hálfsmánaðarlega yfir sumartímann (júní, júlí og ágúst) en á þriggja vikna fresti yfir aðra mánuði ársins.
Við hvetjum alla til að fara eftir nýju flokkunarkerfi um leið og tunnan kemur. Við vekjum þó athygli á því að við fyrstu losun verður safnað í eitt hólf í bíl þar sem við getum ekki gert ráð fyrir að allar tunnur hafi verið tómar þegar nýtt kerfi hófst.