Nýtt þjónustuhús á tjaldsvæðinu á Hellissandi
Húsið er úr forsteyptum einingum frá BM Vallá og var því komið fyrir á tjaldsvæðinu í gær. Nú hefst vinna við að steypa plötu og setja þak á það áður en farið verður í að ganga frá húsinu að innan. Hönnun hússins fellur vel að umhverfinu og ber ekki mikið á því í hrauninu.
Tjaldsvæði Snæfellsbæjar hafa notið mikilla vinsælda undanfarin ár og hefur sveitarfélagið lagt sig fram við að bæta þjónustu og aðbúnað til að gera dvöl gesta sem ánægjulegasta. Er nýja þjónustuhúsið liður í því verkefni.
Um tjaldsvæðið á Hellissandi:Tjaldsvæðið á Hellissandi er staðsett í fallegu hrauni er kallast Sandahraun. Á svæðinu er þjónustuhús með salerni (einnig fyrir fatlaða), sturtum og vaskarými. Rafmagnstenglar eru á svæðinu en hægt er að leigja aðgang að rafmagni.
Á Hellissandi er einnig hægt að losa úrgang úr húsbílum og heitt og kalt vatn.
Skemmtilegar gönguleiðir eru í næsta nágrenni, fallegar fjörur með öllum þeim ævintýrum sem þær bjóða uppá. Sólsetrin við Breiðafjörð séð frá Sandahrauni eru óviðjafnanleg og þjóðgarðurinn Snæfellsjökull er næsti nágranni við tjaldsvæðið.
Verð 2020Fullorðnir: 1.500,- kr.
Unglingar 14-16 ára: 500,- kr
Frítt fyrir 13 ára og yngri
Aldraðir og öryrkjar: 1.000,- kr.
Rafmagn: 700,- kr.
Sturtur innifaldar í verðunum.