Opið útboð vegna framkvæmda við búsetukjarna fyrir íbúa með fötlun
Um er að ræða byggingu á einni hæð með fimm íbúðum. Íbúðakjarninn verður 440 m² og mun rísa þar sem nú eru lóðirnar Ólafsbraut 62 og 64. Þann 10. mars sl. var hafist handa við að rífa eldri mannvirki sem stóðu á lóðunum til að rýma fyrir nýja húsinu.
Í íbúðakjarnanum verða fimm einstaklingsíbúðir með sérinngangi ásamt starfsmannaaðstöðu. Íbúðirnar verða tveggja herbergja, á bilinu 54 til 56 fermetrar að stærð og standa saman af alrými með eldhúskróki og stofu, svefnherbergi, rúmgóðu baði, geymslu og þvottarými. Einn aðalinngangur er inn í bygginguna en þar undir þaki er nokkurs konar „innigata“. Frá henni er gengið inn í hverja íbúð fyrir sig. Útgengt er á veröld við hverja íbúð. Starfsmannarými er í húsinu og hugmyndin er sú að íbúar geti leitað til starfsfólks án þess að fara undir bert loft.
Staðsetning hússins var valin með það fyrir augun að stutt sé í alla helstu þjónustu, ekki síst Smiðjuna, sem er dagþjónusta og vinnustofa fyrir fólk með skerta starfsgetu. Það er teiknistofan AVH á Akureyri sem hannar húsið.
Verkís hf., fyrir hönd Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga, óskar nú eftir tilboðum í framkvæmdina.
Verkið nær til fullnaðarfrágangs alls verksins. Verktaki skal steypa grunn, reisa hús, innrétta, ganga frá utanhúss sem og innan og fullgera húsið samkvæmt útboðsgögnum.
Verktaki tekur við byggingarsvæði í núverandi ástandi. Búið er að fylla undir undirstöður, fylla í bílastæði og girða athafnarsvæði og setja upp hlið inn á vinnusvæðið.
Verklok á heildarverki eru 30. ágúst 2021.
Vettvangsskoðun verður haldin á verkstað 27. apríl kl. 11.00.
Tilboðum skal skila rafrænt á netfangið anmt@verkis.is fyrir kl. 13.00, 11. maí 2020. Tilboð verða opnuð á fjarfundi kl. 13.30, 11. maí 2020.
Útboðsauglýsingu VERKÍS má sjá hér