Opið útboð vegna jarðvinnu við þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi
Sædís Heiðarsdóttir og Sigrún Magnúsdóttir, þáv. umhverfisráðherra, tóku fyrstu skóflustungu árið 2016. Ljósmynd: Alfons Finnsson.
Framkvæmdasýsla ríkisins hefur kynnt opið útboð á framkvæmdum við jarðvinnu og girðingavinnu verksvæðis þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi. Þjóðgarðurinn var stofnaður árið 2001 og fimm árum síðar var efnt til opinnar samkeppni um þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi. Það hefur því verið stefnt að opnun þjóðgarðsmiðstöðvar lengi og er vonast til að nú verði skrefið stigið til fulls. Það yrði lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á svæðinu og gerði þjóðgarðinn betur í stakk búinn til að taka á móti ferðamönnum sem heimsækja svæðið allt árið um kring.
Upplýsingar um útboð:Framkvæmdasýsla ríkisins, f.h. Umhverfisráðuneytisins, kynnir opið útboð á framkvæmdum við jarðvinnu og að girða af verksvæði fyrir fyrirhugað hús þjóðgarðsmiðstöðvar á Hellissandi (ÞMH). Verkið er undirbúningsframkvæmd vegna byggingar nýrrar þjónustumiðstöðvar (ÞMH) fyrir Þjóðgarð Snæfellsjökuls á Hellissandi.
Um er að ræða gröft fyrir húsi, bílaplani, lögnum og fyllingu undir sökkla og burðarlags undir bílastæði á lóð.
Helstu magntölur eru:
- Girðingar 260 m
- Gröftur 3.000 m3
- Þar af losun klappar 800 m3
- Fyllingar 2.500 m3
- Vinnsla hrauns 250 m3
Stærð lóðar er u.þ.b. 11.500 m2 og stærð fyrirhugaðs húss er u.þ.b. 700 m2.
Byggingarreiturinn er á hornlóð og liggur þjóðvegur í þéttbýli, Útnesvegur, með henni að norðanverðu. Norðan við þjóðveginn er íbúðabyggð Hellissands. Að austanverðu er lóð Sjóminjasafns Hellissands.
Reiknað er með því að verkið geti hafist í byrjun mars 2019 og verði lokið um miðjan maí.
Hægt er að sækja útboðsgögn á vef Ríkiskaupa.