Opnun listasýningarinnar Nr. 3 Umhverfing

Ein stærsta samlistasýning sem sett hefur verið upp á Íslandi opnar víðs vegar á Snæfellsnesi um helgina. Listasýningin ber heitið Nr. 3 Umhverfing og er haldin á vegum Akademíu skynjunarinnar í samstarfi við Svæðisgarðinn Snæfellsnes.

Sýningin er einstök að því leyti að óskað var sérstaklega eftir einstaklingum sem eiga rætur að rekja á Snæfellsnes og má því segja að flestir listamanna tengist Snæfellsnesi með beinum hætti, en markmið verkefnisins er einmitt að setja upp myndlistarsýningar á verkum myndlistarmanna í þeirra „heimabyggð”.

Opnunarhátíð sýningarinnar verður haldin samhliða opnun nýrrar Gestastofu Snæfellsness á Breiðabliki og stendur frá kl. 12 - 14 í félagsheimilinu Breiðabliki í Eyja- og Miklaholtshreppi laugardaginn 22. júní.

Áhugasamir eru hvattir til að líta við á opnun gestastofunnar og listasýningarinnar á Breiðabliki um helgina.