Orð í gluggum - orðafjársjóðsleikur fyrir fjölskylduna

Nú förum við saman í orðafjársjóðsleit og setjum orð í gluggann, líkt og í vor settum við bangsa í gluggann.
 
Í vor settu börn bangsa í glugga. Hvernig væri að núna skrifaði fólk orð á blað og setti í glugga hjá sér. Þá geta börn eða fjölskyldur gengið um hverfið og safnað orðum, hægt er að athuga hversu mörg mismunandi orð finnast og ræða merkingu þeirra. Örugglega finnast einhver orð sem eru ný í orðaforða barnsins eða hins fullorðna.
 
Önnur hugmynd er að þeir sem tala önnur mál en íslensku geta sett orð á sínu máli og kannski tekið fram hvaða mál það er og þannig sjáum við hversu fjölbreytt samfélag okkar er.
 
Hvatt er til að velja orð sem eru jákvæð, fyndin, skrýtin, skemmtileg eða forvitnilega. Pössum að hafa letrið stórt og læsilegt svo auðvelt sé að lesa og halda hæfilegri fjarlægð.
 
Hér eru nokkrar hugmyndir sem Miðja máls og læsis hefur tekið saman fyrir foreldra og forráðamenn:
  • Tölum saman um orðin
  • Veltum þeim fyrir okkur
  • Vekjum athygli á jákvæðum orðum og hvað falleg orð geta haft mikla þýðingu
  • Æfum okkur að nota orðin í setningu
  • Samvera og spjall
Miðja máls og læsis hefur stofnað viðburð inn á Facebook undir heitinu Orð í gluggum sem má finna hér.
Hægt er að nálgast nánari leiðbeiningar hér.